Reykjavik Media hefur látið koma upp leið til að senda skjöl nafnlaust og dulkóðað til okkar. Sú leið byggir á forritinu Securedrop og er mikilvægt að þú lesir leiðbeiningarnar áður en þú sendir gögn í gegnum forritið.

Öryggi heimildarmanna Reykjavik Media er okkur hjartans mál. Í gegnum Securedrop getur þú komið til okkar skilaboðum og skjölum án þess að þurfa að gefa upp persónugreinanlegar upplýsingar um þig. Skjöl og skilaboð sem við fáum frá þér verða dulkóðuð.

Hvernig virkar leynihólf Reykjavik Media?

Allt sem fer fram á internetinu skilur eftir sig slóð. Áður en þú dembir þér í þessa framkvæmd skaltu koma þér fyrir á stað þar sem er aðgangur að opinni nettengingu, til dæmis á kaffihúsi, helst þar sem þú ert ekki tíður gestur og þar getum við hafist handa.

Önnur leið er að tengjast VPN.

  • Sæktu Tor Browser Bundle frá https://www.torproject.org/
  • Opnaðu Tor Browser og copy/paste-aðu í address línuna: http://65mqtxmhkrddvu6o.onion/
  • Fylgdu leiðbeiningum um hvernig megi senda okkur upplýsingar. Þér verður gefið dulnefni sem þú notar svo til að athuga með svör í framhaldinu.

Ekki fara inn á Securedrop í gegnum heimilistölvuna þína eða frá vinnustað. Viljir þú gæta fyllsta öryggis og leyndar er mælst til um að nota stýrikerfið Tails frekar en Tor Browser.

SecureDrop er opið kerfi sem sett var upp með þarfir og aðstæður uppljóstrara í huga. Það var upprunalega hannað af Aaron Swartz og er haldið við af Samtökum um fjölmiðlafrelsi.

Praktískar upplýsingar

Securedrop er stjórnað af starfsfólki Reykjavik Media. Við höldum ekki utan um upplýsingar varðandi IP-tölu þína, leitarvélar né heldur sendum við vafrakökur til þín. Þegar þú notar Tor til þess að tengjast Securedrop svæðinu okkar, er sú tenging dulkóðuð.

Þegar notast er við Tor er þeim gert erfitt fyrir, sem mögulega gætu verið að fylgjast með því sem fer fram á nettengingunni þinni.

Þegar þú sendir skilaboð í gegnum Securedrop svæðið okkar eða hleður þar inn skjölum, eru þær upplýsingar geymdar í dulkóðaðri útgáfu. Blaðamenn okkar geyma kóðann í tölvum sem eru aldrei nettengdar.

Jafnvel þótt einhverjum tækist að brjóta sér leið inn á Securedrop svæðið okkar eða þá að harða disknum væri stolið, væru upplýsingarnar sem þar væru enn þá varðar.

Þó skal tekið fram að ekkert kerfi getur með algjörri vissu tryggt fullkomið öryggi og væri óábyrgt af okkur að fullyrða að í þessu fælist engin áhætta. Securedrop er reglulega tekið út af óháðum öryggissérfræðingum en eins og öll tölvuforrit er alltaf sá möguleiki fyrir hendi að í því leynist galli sem hakkarar gætu notfært sér.

Hafi tölvunni, sem notuð er til þessa, á einhverjum tímapunkti verið teflt í tvísýnu, á það líka við um upplýsingar um notkun hennar, þar á meðal samskipti þín sem farið hafa fram gegnum Securedrop.

Þegar öllu er á botninn hvolft er það undir þér komið hvort þú takir þessa áhættu.