Algengasta spurningin sem ég hef fengið frá erlendum blaðamönnum síðustu vikurnar er þessi; „Hvað er svo að frétta af íslensku ráðherrunum sem voru í Panamaskjölunum?“ Svar mitt hefur verið þetta; „Þeir voru allir kosnir á alþingi í október og eru í efstu sætum á sínum listum.“ Viðbrögð blaðamannanna við þessum upplýsingum hafa yfirleitt verið á þessa leið; „What! You must be joking?“

Já - árið hefur verið viðburðarríkt hjá Reykjavik Media og ber þar auðvitað hæst Kastljósþátturinn sem sýndur var 3. apríl þegar umfjöllunin um Panamaskjölin hófst á heimsvísu. Mánuðina á undan höfðu 376 blaðamenn á 109 fjölmiðlum í 76 löndum unnið sleitulaust að rannsóknum á Panamaskjölunum í sínum löndum og víðar. Fréttirnar úr þessum stærsta leka sögunnar hafa margar farið um allan heim eins og fréttin um íslenska forsætisráðherrann.

Egóinu hent

Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna (ICIJ.org) og hópur blaðamanna á þýska dagblaðinu Süddeutsche Zeitung hélt utan um verkefnið sem er það stærsta hingað til á sviði blaðamennsku. Í júní á síðasta ári fór ég á fyrsta fundinn sem ICIJ hélt um Panamaskjölin og var þar ásamt blaðamönnum örfárra fjölmiðla sem fyrst komu að verkefninu. Á þessum fundi var farið yfir allar helstu stærðir lekans og okkur var kennt að leita í gagnagrunninum sem ICIJ hefur umsjón með. Marina Walker aðstoðarframkvæmdastjóri ICIJ sagði á þessum fundi að allir blaðamenn sem tækju þátt í þessu verkefni yrðu að henda egóinu – það væru allir jafnir sama hvort þeir væru stjörnublaðamenn á stærstu og virtustu fjölmiðlum heims. Þetta væri samstarfsverkefni þar sem allt gengi út á að deila upplýsingum, aðstoða aðra blaðamenn ef þörf væri á og að tímamörk væru virt. Þetta stóðst allt og frá þessum fundi þartil 3. apríl hélst trúnaðurinn og ekkert lak út þrátt fyrir að tæplega tæplega 400 blaðamenn og enn fleira samstarfsfólk á fjölmiðlunum ynnu að verkefninu.

Panamaskjölin
Panamskjölin birtust 3. apríl. Mynd: Süddeutsche

Lyftistöng fyrir rannsóknarblaðamennsku

Að mínu mati eru alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna ein mikilvægasta stoð rannsóknarblaðamennsku í heiminum í dag. Frá því ég kom að Panamaskjölunum hef ég unnið náið með stjórnendum og starfsfólki ICIJ og fylgst með því mikilvæga starfi sem þau gegna í fjölmörgum verkefnum á sviði rannsóknarblaðamennsku. Og Panamaskjölin hafa verið mikilvæg lyftistöng rannsóknarblaðamennsku víða um heim og verið hvatning til stjórnenda fjölmiðla um að leggja aukið fjármagn í rannsóknarverkefni blaðamanna. Ég hef persónulega kynnst því hvaða áhrif Panamaskjölin hafa haft á unga blaðamenn og nema í blaðamennsku. Þetta unga fólk sem ég hef hitt hefur mestan áhuga á að starfa sem rannsóknarblaðamenn og birta fréttir sem skipta máli og bæta samfélagið.

Fréttir sem skipta máli

Á þessu ári hefur mér verið boðið á annan tug ráðstefna um rannsóknarblaðamennsku í fjölmörgum löndum. Þar hef ég haldið erindi um blaðamennsku, vinnuna við Panamaskjölin og tengingarnar við Ísland, ásamt öðrum blaðamönnum sem unnu við Panamaskjölin. Á þessum ráðstefnum hef ég kynnst fjölmörgum erlendum blaðamönnum, sumum með áratugareynslu, sem hafa birt fréttir í sínum löndum um spillingu og aðra óværu – fréttir sem hafa breytt þeirra samfélagi. Í öllum þeirra fréttum hefur almenningur skipt öllu máli – því þegar almenningur fær að heyra eða sjá sannleikann bregst hann við og það var einmitt það sem gerðist á Íslandi í kjölfar Kastljóssþáttarins 3. apríl.  

Samsæriskenningarnar

Margir af þessum blaðamönnum sem ég hef hitt og kynnst búa við allt annað starfsumhverfi en við eigum að venjast á Íslandi. Hér reyna þeir sem afhjúpaðir eru að afvegaleiða umræðuna um þá sjálfa og úthrópa blaðamennina með litlum árangri. Þeir reyna að fá almenning til að trúa því að um samsæri gegn þeim sé að ræða og sumir fjölmiðlar halda þeim áróðri á lofti ef það hentar þeim. Þessi fyrirsjáanlegu viðbrögð hér á Íslandi eru hjóm eitt miðað við það sem blaðamenn til dæmis í Suður Ameríku eða Rússlandi þurfa að þola. Þar þurfa þeir að óttast um líf sitt þegar þeir birta fréttir um spillta stjórnmála- eða viðskiptamenn.

Ferðin til Panama

Mér var boðið á ráðstefnu Transparency International  sem haldin var í Panama í byrjun desember ásamt nokkrum öðrum blaðamönnum sem unnu við Panamaskjölin. Í hópnum voru ræddir þeir möguleikar hvort stjórnvöld í Panama myndu hafa einhver afskipti af okkur, en stjórnvöld í Panama eru síður en svo sátt við umfjöllunina um Panamaskjölin. Á Schiphol flugvellinum í Amsterdam hitti ég Frederik Obermaier blaðamann Süddeutsche Zeitung og annan þeirra sem Panamaskjölunum var lekið til. Við ræddum hvað gæti mögulega gerst þegar við myndum lenda í Panama en vorum báðir frekar rólegir. Eftir rúmlega 10 tíma flug gengum við frá borði og á móti okkur tók maður sem benti okkur á að elta sig. Hann dró okkur fram fyrir allar raðir og fylgdi okkur í gegnum vegabréfaeftirlit og tollinn og strax upp í rútuna. Við vorum að sjálfsögðu ánægðir með að komast svona hratt út úr flugstöðinni en síðar um daginn var okkur sagt að yfirvöld í Panama hefðu verið beðin um að handtaka alla blaðamenn sem unnu að Panamaskjölunum. Yfirvöld urðu ekki við þessum óskum sem betur fer fyrir okkur, en við svona ógn og mun meiri búa blaðamenn við í þessum heimshluta.

RME.is

Síðustu mánuði hef ég verið að reyna að finna viðskiptamódel fyrir Reykjavik Media og það er ansi snúið verkefni í því fjölmiðlaumhverfi sem við búum við hér á Íslandi í dag. En ég er bjartsýnn og finn fyrir miklum stuðningi og snemma á næsta ári ráðgeri ég að Reykjavik Media birti fréttir með reglulegum hætti og jafnvel daglega. Á borðinu liggja fréttamál sem mikilvægt er að birta og sem betur fer finn ég fyrir miklu trausti í minn garð og fólk kemur ábendingum til mín um mikilvæg mál.

Ókvæðisorð í matvörubúðum

Ég hef fundið fyrir miklum stuðningi almennings í minn garð eftir Kastljósþáttinn í vor og það hefur að sjálfsögðu verið mér hvatning. Fjölmargir hafa stoppað mig á förnum vegi til að ræða málin á uppbyggilegum nótum á meðan einn og einn hafa til dæmis öskrað ókvæðisorðum að mér í matvörubúðum eða öðrum opinberum stöðum. Og þeir eru örfáir sem hafa reynt og reyna enn að gera umfjöllun Kastljóssins tortryggilega með samsæriskenningum, þvættingi og þvaðri sem byggir á bulli. Það sem skiptir mig mestu máli er að allt sem fram kom í Kastljósþættinum er rétt og hefur ekki verið hrakið.

Mótmæli
Íslendingar gripu til mótmæla eftir birtingu skjalanna. Mynd: RME

Viðtalið

Eina gagnrýnin sem ég hef séð varðandi viðtalið við forsætisráðherrann fyrrverandi í Kastljósþættinum er frá ötulustu stuðningsmönnum hans, ritstjóra Morgunblaðsins og bloggara sem titlar sig blaðamann. Allt frá því ég var ritstjóri Kompáss á Stöð 2 hef ég og samstarfsfólk mitt leitast við að koma sannleikanum á framfæri. Og þegar hefðbundnar aðferðir blaðamennsku duga ekki til hef ég notast við faldar myndavélar eða „konfrontað“ þá sem fréttina varða í þeim eina tilgangi að sannleikurinn komi fram. Ákvörðunin um að „konfronta“ fyrrum forsætisráðherra var ekki tekin á einni nóttu. Ákvörðunin var tekin af nokkrum af fremstu blaðamönnum heims og rædd í þaula út frá öllum hliðum. Niðurstaðan var alltaf sú sama; fyrrum forsætisráðherra hafði aldrei gert grein fyrir eignarhlut sínum eða eiginkonu sinnar í aflandsfélaginu Wintris Inc – fyrirtæki sem skráð var í skattaskjóli og var kröfuhafi í föllnu bönkunum. Fyrrum forsætisráðherra hafði ekki sagt þjóðinni frá því að á sama tíma og hann sagðist ætla að berjast við kröfuhafana – væri eiginkona hans kröfuhafi. Að mati allra þeirra blaðamanna sem ræddu þessa óhefðbundnu aðferð í blaðamennsku skipti eftirfarandi máli; að forsætisráðherra leyndi mikilvægum upplýsingum frá þjóðinni – upplýsingum sem skiptu þjóðina máli, að ef óskað yrði eftir viðtali með heðfbundnum hætti og upplýst að spurt yrði um Wintris Inc þá væri sá möguleiki fyrir hendi að ráðherra og starfsfólk hans myndi reyna að spilla fyrir fréttaflutningi af málinu. Að sem forsætisráðherra og æðsti embættismaður þjóðarinnar ætti hann að geta svarað öllum spurningum og að það væri nauðsynlegt að sjá fyrstu viðbrögð hans við spurningum um Wintris Inc. Við vitum hvernig það fór, en það er mikilvægt að upplýsa það að forsætisráðherranum fyrrverandi var margoft boðið að koma í annað viðtal til að útskýra aðkomu sýna að aflandsfélaginu áður en Kastljósþátturinn fór í loftið.

Væmni parturinn

Að endingu vil ég þakka nokkrum fyrir samstarf og vináttu á árinu sem er að líða og þeir eru; Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður sem nú starfar sem einn umsjónarmanna Morgunútvarpsins á Rás 2, en Aðalsteinn stóð sem klettur við hlið mér fram á sumar þegar hann ákvað að reyna fyrir sér í útvarpinu. Ég þakka öllu Kastljósteyminu frábært samstarf við gerð Kastljósþáttarins og sérstaklega Helga Seljan, Inga R. Ingasyni, Þóru Arnórsdóttur, Jóhannesi Tryggvasyni, Sævari Jóhannessyni og Millu Ósk Magnúsdóttur ásamt öðru starfsfólki RÚV sem kom að gerð þáttarins. Ég þakka Kjarnanum, Stundinni og Fréttatímanum fyrir gott samstarf um birtingu á fréttum úr Panamaskjölunum. Ég vil þakka mínum dyggu starfsmönnum Reykjavik Media, þeim Barða Stefánssyni og Grími Sigurðssyni fyrir stuðninginn frá upphafi. Ég þakka Óskari Sigurðssyni sem hefur síðustu mánuði unnið með mér að þróun Reykjavik Media. Kristni Hrafnssyni blaðamanni þakka ég fyrir ráðgjöfina í gegnum árin. Ég þakka öllum þeim sem studdu Reykjavik Media með fjárframlagi á árinu og á árinu 2017 verða uppákomur fyrir þá sem studdu okkur á Karolina Fund. Að lokum þakka ég fjölskyldunni minni fyrir að hafa staðið með mér og þá sérstaklega Brynju minni – sem er mín stoð og stytta.

Íslandsvinurinn Sven Bergman fréttamaður sænska sjónvarpsins bað mig fyrir kveðju og óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Ég tek undir þá kveðju til allra og hlakka til spennandi verkefna Reykjavik Media á nýja árinu, jafnt innanlands sem utan.