Ingimar Ingimarsson, viðskiptafélagi Björgólfsfeðga í Rússlandi á tíunda áratug síðustu aldar, stýrði neti aflandsfélaga sem meðal annars seldi bjór- og gosdrykkjaverksmiðju í Rússlandi gosdrykkjatappa, skrúfur, skrúfbolta og fleira smálegt í röð viðskipta. Þetta kemur fram í Panamaskjölunum en þar er að finna gögn um viðskipti umræddra félaga sem Ingimar stýrði. 

Mikið hefur verið skrifað um Rússlandsviðskipti Ingimars og Björgólfsfeðga og gaf hinn fyrrnefndi meðal annars út bók um efnið fyrir nokkrum árum. Samskiptasaga þeirra Ingimars og feðganna endaði illa og gengu ásakanir um svik og brigsl þeirra á milli um árabil. 

Í þessum gögnum er ekki að finna sambærilegar upplýsingar um Björgólfsfeðga sjálfa en Björgólfur Thor skrifaði hins vegar undir samninga við aflandsfélögin sem Ingimar stýrði sem framkvæmdastjóri verksmiðjunnar Baltic Bottling Plant í Sankti Pétursborg. Einn slíkur samningur var upp á þrjár milljónir tappa fyrir 1.5 lítra plastflöskur og var hann gerður árið 1995. Þrjú af félögunum hétu Belgravia Limited, Whitehall Limited og Northcroft Trading Limited og stýrði Ingimar þeim öllum. Aflandsfélög Ingimars gerðu einnig samninga um sölu og dreifingu á gosdrykkjum og bjór í Rússlandi fyrir önnur fyrirtæki. 

Í samtali við Fréttatímann segir Ingimar að hann muni vel eftir Northcroft Trading og að það hafi verið notað til að selja verksmiðjunni í Rússlandi vörur og efni. „Þetta félag átti líka að fara í útgerð í Murmansk í Rússlandi en svo datt það allt upp fyrir,“ segir Ingimar en aðspurður segist hann ekki hafa notað aflandsfélög síðan. Ingimar man ekki hverjir voru skráðir eigendur Northcorp Trading.