Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna, ICIJ

Wilbur Ross, viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Donalds Trumps hefur átt í vafasömum viðskiptum við fyrirtæki í Rússlandi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum gagnaleka frá aflandssvæðum. Þar birtast einnig upplýsingar um leynileg viðskipti manns sem hefur staðið í forsvari fyrir fjáröflun Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. Auk upplýsinga um stórtækar eignir Elísabetar Englands drottningar á aflandssvæðum. Nöfn allt að 120 stjórnmálamanna frá löndum víðsvegar um heim er einnig að finna í gögnunum.

Í gögnunum má sjá hversu samtvinnuð aflandsviðskipti eru stjórnmálum. Þar má einnig fá innsýn inn í flóknar bókhaldsbrellur sem alþjóðleg stórfyrirtæki á borð við Apple, Nike og Uber nýta sér til að komast undan skattgreiðslum.

Meðal þeirra einstaklinga sem nefndir eru í gögnunum er fjárfestirinn Wilbur Ross, viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta. Þar kemur fram að hann hafi grætt um 68 milljónir dollar frá árinu 2014 á viðskiptum sínum við rússneskt orkufyrirtæki í eigu tengdarsonar Vladímírs Pútin, Rússlands forseta.

Hátt á annan tug ráðgjafa Trumps og ráðherra í ríkisstjórn hans eru nefndir í gögnunum. Einnig eru þar nöfn margra sem hafa styrkt kosningasjóði hans með stórum fjárhæðum.

Gögnunum var lekið frá tveimur fyrirtækjum sem sinna aflandsviðskiptum. Fyrirtækin tvö eru staðsett á Bermúda og Singapúr en einnig innihalda þau fyrirtækjaskrár 19 aflandssvæða. Þýska blaðið Süddeutsche Zeitung komst yfir gögnin og hefur unnið úr þeim í samvinnu við ICIJ og um 380 blaðamenn í 67 löndum.

Erfitt getur reynst að brjótast í gegnum þá leynd sem ríkir í skattaparadísum og á aflandssvæðum. Yfirleitt er ómögulegt að því komast að því hverjir eru eigendur fyrirtækja sem skráð eru á þannig svæðum. Það getur verið löglegt að eiga aflandsfélög en hins vegar eru þau oft nýtt í glæpsamlegum tilgangi, svo sem til að fela hagnað af eiturlyfjasölu. Innan þeirra er hægt er að fela mútufé og hafa spilltir stjórnmálamenn nýtt þau í þeim tilgangi. Oftar en ekki eru þessi félög skúffufyrirtæki án starfsmanna sem nýtt eru til að fela skattpeninga frá stjórnvöldum. Undanfarin ár hafa ríki heims tapað milljörðum dollara á slíkum brellum.

Brooke Harrington sem kennir við Viðskiptaháskólinn í Kaupmannahöfn (Copenhagen Business School) og starfar jafnframt sem sérfræðingur í eignastýringu segir að aflandsviðskipti valdi því að fátækir verði fátækari og að ójöfnuður eykst. Hún er einnig höfundur bókarinnar Capital without Borders: Wealth Managers and the One Percent.

„Fámennur hópur fólks þarf ekki að lúta sömu lögum og við hin" sagði Harrington. Hún heldur því fram að þessi hópur geti nýtt sér allt sem samfélagið bíður upp á án þess að sinna þeim skildum sem lagðar eru á einstaklinginn.

Á síðasta ári voru hin svokölluðu Panamaskjöl birt eftir ítarlega rannsókn ICIJ og samstarfsfélaga þeirra. Nýjustu gögnin eykur við þær upplýsingar og gefa innsýn inn í fleiri aflandssvæði á við Panama.

Flest gögnin koma frá lögfræðifyrirtækinu Appelby og Estera, fyrirtæki sem þjónustar aflandsfélög. Það síðarnefnda var hluti af Appelby þangað til árið 2016 þegar það varð sjálfstætt fyrirtæki.

Stærsti einstaki hópur viðskiptavina Appleby eru bandaríkskir ríkisborgarar en 3100 bandarískir einstaklingar og fyrirtæki eru nefnd í gögnunum. Önnur stór viðskiptalönd eru til dæmis Bretland, Kína og Kanada.

Lekinn inniheldur næstum 7 milljónir skjala frá Appleby og tengdum félögum frá árunum 1950 til 2016. Skjölin innihalda tölvupósta, milljarða dollara lánasamninga og bankayfirlit að minnsta kosti 25,000 fyrirtækja sem tengjast einstaklingum og fyrirtækjum í 180 löndum.

Appleby er meðlimur The Offshore Magic Circle, sem eru óformleg samtök helstu fyrirtækja sem sinna aflandsstarfsemi. Fyrirtækið var stofnað á Bermúda og hefur skrifstofur í Hong Kong, Sjanghæ, Bresku Jómfrúareyjum, Cayman eyjum og öðrum aflandssvæðum.

Á þeirri öld sem Appleby hefur starfað hefur það skapað sér gott orðspor og tekist að forðast skandala. Það ríkir mikil leynd yfir starfsemi fyrirtækisins sem rekur það kostnaðarsamt eftirlit með viðskiptavinum. Þrátt fyrir jákvæða ímynd fyrirtækisins sýna gögnin að fyrirtækið hefur þjónustað vafasama aðilia í löndum á borð við Íran, Rússland og Líbíu.

Í gögnunum er einnig er að finna um hálfa milljón skráa frá Asiciati Trust, sem er fyrirtæki sem sérhæfir sig í aflandsþjónustu. Fyrirtækið hefur höfuðstöðvar i Singapúr og skrifstofur víðsvegar um heim.

Gögnin innihalda einnig upplýsingar frá fyrirtækjaskrám margra þeirra landa sem búa við hvað mesta bankaleynd.

Ýmislegt áhugavert kemur fram í lekanum. Til dæmis kaup Sameinuðu Arabísku Furstadæmanna á njósnaflugvélum. Tilraunir kanadísks fyrirtækis á Barbadós til að búa til öflug vopn fyrir fyrrum einræðisherra Íraks, Saddam Hussein. Einnig kemur við sögu fyrirtæki Marcial Maciel Degollado sem staðsett er á Bermúda. Hann var Mexíkanskur prestur og stofnandi trúarreglunnar Legionaries of Christ. Í seinni tíð hefur hann verið ásakaður um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.

Overview-RoccoFazzari.jpg
Upplýsingar um aflandstengsl Elísabetar Englandsdrottningar eru í gögnunum. 

Appleby gögnin sýna að Elísabet II Englandsdrottning hefur fjárfest í lyfja- og neytendalánafyrirtækjum fyrir milljónir dollara. Þrátt fyrir að fjármálastjóri drottningarinnar, hertoginn af Lancaster, veiti að einhverju leyti upplýsingar um fjárfestingarnar á Bretlandi, til að mynda um atvinnuhúsnæði sem eru á víð og dreif um suður England, þá hefur aldrei verið upplýst nánar um aflandseignir drottningar.

Gögnin sýna að drottningin fjárfesti í sjóðum á Cayman eyjum sem síðan fjárfestu í fyrirtæki sem réð yfir breska lánafyrirtækinu BrightHouse. Fyrirtækið hefur verið gagnrýnt af þarlendum neytendasamtökum og þingmönnum. Fyrirtækið hefur meðal annars verið gagnrýnt fyrir að selja búsáhöld til fátækra Breta á raðgreiðslum með allt að 99,9% vöxtum.

Annað kóngafólk og stjórnmálamenn voru einnig afhjúpuð fyrir aflandseignir.  Noor Jórdaníudrottning, sem er skráður eigandi (eng. beneficiary) tveggja sjóða á eyjunni Jersey, þar á meðal sjóðs sem heldur utan um herragarð hennar á Bretlandi. Sam Kutesa utanríkisráðherra Úganda og fyrrum forseti Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna stofnaði aflandssjóð á Seychelles eyjum  utan um persónulegan auð sinn. Fjármálaráðherra Brasilíu, Henrique de Campos Meirelles, stofnaði sjóð á Bermúda með því yfirskini að sjóðurinn væri ætlaður til góðgerðarmála. Antanas Guoga, sem er litháeskur Evrópuþingmaður og atvinnumaður í póker, sem átti hlut í félagi skráðu á eyjunni Mön. Meðeigandi í því félagi var meðal annars stórtækur fjárhættuspilari sem gerði dómsátt eftir að hafa verið ákærður fyrir fjársvik í Bandaríkjunum.

Gögnin sýna að Wesley Clark átti veðmálasíðu með aflandstengl. Clark er þekktastur fyrir að hafa reynt að verða forsetaefni Demókrata og hefur einnig starfað sem yfirmaður herafla Nato í Evrópu.

Talsmaður Elísabetar II Englandsdrottningar sagði The Guardian, sem er samstarfsaðili ICIJ frá því að hún ætti í sjóði á Cayman eyjum, en hann þekkti ekki til fjárfestingarinnar í BrightHouse. Talsmaðurinn greindi frá því í tilkynningu að drottningin greiði ávallt skatta af sínum eignum og fjárfestingum.

Noor drottning greindi ICIJ frá því að „arfurinn sem hún og börnin hennar fengu [frá hinum látna Hussein konungi] hafi alltaf bæði verið löglegur og ráðstafað eftir ströngum siðferðiskröfum.” Meirelles, fjármálaráðherra Brasilíu, sagðist aldrei hafa hagnast á sjóðnum og að hann yrði nýttur til menntnamála eftir hans tíð. Guoga sagðist hafa tilkynnt yfirvöldum um eignir sínar og hefi selt síðasta hlut sinn í félaginu árið 2014. Kuetsa viðurkenndi að hafa stofnað fyrirtækin en hélt því þó fram að hann hefði beðið Appleby um að loka þeim fyrir mörgum árum. Ekki náðist í Clark við framkvæmd rannsóknarinnar.

Auk upplýsinga um stjórnmálamenn og fyrirtæki þá veita gögnin innsýn inn í fjármál ríka- og frægafólksins. Til dæmis skráði meðstofnandi Microsoft, Paul Allen, eignarhald á snekkju og kafbáti á aflandssvæði. Pierre Omidyars, stofnandi eBay átti aflandsfyrirtæki á Cayman eyjum. Söngkonan Madonna átti hlut í heilbrigðisfyrirtæki í gegnum aflandsfélag. Poppsöngvarinn og aðgerðarsinninn Bono átti hlutabréf í fyrirtæki skráðu á Möltu sem fjárfesti í verslunarmiðstöð í Litháen. Fyrirtækið var skráð á fæðingarnafn hans Paul Hewson. Aðrir lítt þekktari viðskiptavinir Appelby skráðu starfsheiti sín sem hundasnyrtir, pípulagningamaður og brimbrettakennari.

Ekki fengust svör frá Madonnu og Allen. Talskona Omidyar sem á fyrirtækið Omidyar Network, sem er einn styrkveitanda ICIJ sagði að hann gæfi alltaf fjárfestingar sínar upp til skatts. Talskona Bono sagði að hann væri „óvirkur minnihlutaeigandi” í fyrirtækinu á Möltu og að því hafi verið lokað árið 2015.

Appleby reception3.jpg
Skrifstofa Appleby á Bermúda. 

Trudeau og Trump

Efnafólk þvert á pólítíska litrófinu nýtir sér aflandsfélög.

Gögnin sýna að Stephen Bronfam, náinn vinur og ráðgjafi forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, millifærði milljónir dollara yfir á sjóð á Cayman eyjum. Þetta gerði hann í samráði við Leo Kolber og son hans. Leo Kolber er valdamikill maður innan Frjálslynda flokksins og fyrrum þingmaður. Sérfræðingar sem hafa rýnt í þau um það bil 3000 skjöl tengd sjóðnum telja líklegt að með þessum hætti hafi þeim tekist að komast hjá því að borga skatta í Kanada, Bandaríkjunum og Ísrael.

Eftir því sem aflandssjóðurinn óx börðust lögfræðingar Bronfam og Kolbergsfeðga ítrekað gegn tillögum lögjafarvaldsins um að loka skattaundanskotum til aflandseyja.

Bermuda4.jpg
Skjölin eiga mörg hver uppruna sinn á Bermúda. 

Bronfam gegnir enn þá mikilvægu hlutverki fyrir Trudeau en hann hefur verið atkvæðamikill í fjáröflunum forsætisráðherranns. Trudeau hefur á sama tíma beitt sér fyrir gagnsæi í stjórnsýslu og lofað að berjst gegn skattaundanskotum. Í september hélt hann ræðu á alsherjarþingi sameinuðu þjóðanna þar sem hann sagði að nauðsynlegt væri að stöðva aflandsfélög.

„Kerfið sem við búum við hvetur efnaða Kanadabúa til að nýta sér einkafyrirtæki til að komast hjá því að borga jafn háa skatta og venjulegir launamenn. Þetta er ósanngjarnt og við ætlum að ráða bót á þessu.”

Lögfræðingar Kolbers skrifuðu ríkisútvarpi Kanada, eins samstarfsaðila ICIJ, að „hvorki færslur né fyrirtækjunum hafi verið nýtt í þeim tilgangi að komast undan skatti.” Þeir sögðu einnig að allar aðgerðir þeirra séu löglegar og að Bronfam myndi ekki tjá sig frekar um málið.

Gögnin sýna fram á vafasöm viðskiptatengsl lykilráðgjafa Donalds Trumps.

Applebyskjölin sýna að viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, Wilbur Ross, hefur notað fjölda fyrirtækja á Cayman eyjum til að halda utan um eignir í skipaflutningafyrirtækinu Navigator Holdings. Meðal stærri viðskiptavina fyrirtækisins er orkufyrirtækið Sibur sem tengist rússneskum yfirvöldum. Meðal eiganda Sibur er tengdasonur Vladímír Pútin, Kirill Shamalov og milljarðamæringurinn Gennedy Timchenko sem hefur frá árinu 2014 sætt bandarískum viðskipaþvingunum sökum tengsla hans við Rússlandsforseta. Árið 2016 greiddi Sibur Navigator 23 milljónir dollara. Ross seldi hlut sinn í um 80 fyrirtækjum þegar hann tók við embætti í ríkisstjórn Trump en hann hélt eftir hlut í 9 fyrirtækjum, þar á meðal þeim fjórum sem tengja hann við Navigator og rússneska viðskiptavini þess.

Undanfarið hefur það vakið ótta í Bandaríkjunum að Rússar séu að hafa áhrif á bandarísk stjórnmál.

Daniel Fried, sem hefur ráðlagt ríkisstjórnum bæði Demókrata og Repúblikana segir að spilling loði við Sibur. „Af hverju ætti nokkur yfirmaður innan bandaríska ríkisins að vera í tengslum við spillta einstaklinga tengda Pútín?”

Talsmaður Ross sagði að hann hefði aldrei hitt tengdason Trump né nokkurn af hinum eigendum Sibur og að hann hafi ekki verið í stjórn Navigator þegar viðskiptin við Sibur hófust. Talsmaðurinn sagði einnig að Ross komi aldrei að ákvarðanatökum er varða alþjóðasiglingar. Einnig kom fram að Ross sé almennt hlynntur viðskiptaþvingunum á Rússland.

Í gagnalekanum kemur fram ýmislegt fleira varðandi viðskiptatengsl á milli Rússlands og Bandaríkjanna.

ICIJ og samstarfsaðilar rákust á skjal sem sýndi að rússnesk ríkisfyrirtæki hafi fjárfest í Twitter og Facebook.

Fjárfestingarsjóður tæknifrumkvöðulsins Yuri Milner sinnti hlutverki milligönguaðila fyrir rússneska ríkisfyrirtækið VTB Bank þegar það fjárfesti fyrir 191 milljón dollara í Twitter Inc. Gögnin sýna einnig að dótturfyrirtæki rússneska orkurisans Gazprom fjárfesti í aflandsfélagi sem átti fyrirtæki tengt Milner. Í gegnum þetta eignarhald átti aflandsfélagið hlutabréf fyrir rúmlega milljarð dollara í Facebook, skömmu áður en fyrirtækið var skráð á hlutabréfamarkað.

Fyrir skömmu fjárfesti Milner 850 þúsund dollara í fasteignafélaginu Cadre. Meðstofnandi Cadre er tengdasonur og ráðgjafi Trumps, Jared Kushner.

Milner er rússneskur ríkisborgari en býr í Silicon Valley í Kaliforníufylki. Tengsl hans við Twitter, Facebook og Cadre hafa áður komið fram en tengsl hans við yfirvöld í Rússlandi voru óþekkt.

Talsmaður Milner staðfesti að VTB hefði notað sjóðinn til að fjárfesta í Twitter. Milner sagði í viðtali að hann þekkti ekki til tengsla Gazprom við fjárfestingar sínar og sagði þær ekki tengjast stjórnmálum á nokkurn hátt. Hann hélt því einnig fram að hann hefði fjárfest í Cadre með eigin fé.

Demókrataflokkurinn kemur einnig við sögu í gagnalekanum. Forveri Ross í embætti, Penny Ptizker, hélt því fram að hún myndi selja fjárfestingar sínar þegar hún tæki við starfi viðskiptaráðherra. Gögnin sýna hins vegar að árið 2014, stuttu eftir að hún tók við stöðu viðskiptaráðherra, hafi Pritzker fært eignarhald sitt í tveimur fyrirtækjum á Bermúda yfir á fyrirtæki með sama póstfang og fjárfestingarfyrirtækið hennar í Chicago. Í gögnunum frá Appelby er því haldið fram að fyrirtækið hafi verið í eigu sjóðs sem sinnti hagsmunum barna Pritzkers. Siðfræðingurinn Lawrence Noble telur mögulegt að þessar tilfærslur hafi ekki uppfyllt bandarískar reglur um fjárfestingar ráðherra.

Nöfn einstaklinga sem hafa styrkt bæði Repúblikana og Demókrata koma fyrir í gögnunum. Þeirra á meðal er Randal Quarles sem hefur veitt fé til Repúblikanaflokksins og hóf nýlega störf hjá bandaríska seðlabankanum þar sem hann sinnir eftirliti með kauphöllinni í New York. Hann átti hlut í tveimur fyrirtækjum á Cayman eyjum en annað þeirra stundaði lánaviðskipti við bankann N.T. Butterfield & Son á Bermúda. Þangað til nýlega átti Quarles óbeinan hlut í bankanum sem nú sætir rannsókn í Bandaríkjunum fyrir skattaundanskot. Fjárfestingarsjóðir í eigu eins stærsta styrktaraðila Demókrataflokksins, George Soros, nýttu sér þjónustu Appleby til að halda utan um flókna fléttu aflandsfélaga, þar á meðal í fyrirtæki sem tryggingir tryggingafyrirtæki. Góðgerðarfélagið Open Society Foundation sem er í eigu Soros styður ICIJ með fjárframlögum.

Talsmaður bandaríska seðlabankans hélt því fram að Quarles hefði selt hlut sinn í N.T. Butterfield & Son eftir að hann tók við embætti. Soros neitaði að tjá sig og ekki náðist í Pritzker.

Appleby1.jpg
Skrifstofur Appleby. 

Leyndarmál stjórnenda

Appelby sinnir ekki einungis hagsmunum sumra af ríkustu einstaklingum heims, heldur ráðleggur einnig fyrirtækjum sem vilja lækka skattprósentu sína. Fyrirtækið er ekki skattaráðgjafarfyrirtæki en hefur þó áhrif á hvernig fyrirtæki um allan heim haga sínum skattamálum.

Meðal stærstu viðskiptavina Appelby eru stórir alþjóðlegir bankar á borð við Barclays, Goldman Sachs og BNP Paribas. Einnig má þar nefna stofnanda stærsta byggingafyrirtækis Miðausturlanda og japanska fyrirtækið sem rekur ónýta kjarnorkuverið í Fukushima.

Gögnin sýna að Apple Inc. sem er það fyrirtæki í Bandaríkjunum sem skilar hvað mestum hagnaði, hóf leit að nýrri skattaparadís eftir að rannsókn öldungardeildar Bandaríkjanna leiddi í ljós að fyrirtækið hefði nýtt sér dótturfyrirtæki á Írlandi til að komast hjá því að greiða marga milljarða dollara í skatt.

Í tölvupósti frá lögfræðingum Apple til Appelby er beðið um staðfestingu á því hvort að írskt dótturfyrirtæki geti „stundað stjórnunarstörf … án þess að þurfa að greiða skatt” ef það yrði flutt til ákveðinnar skattaparadísar. Apple neitaði að tjá sig um endurskipulagninu fyrirtækisins en sagði ICIJ að fyrirtækið hefði gert yfirvöldum grein fyrir breytingunum og að þær hafi ekki haft áhrif á skattbyrði þess.

Það kemur fram í gögnunum að stórfyrirtæki hafa náð skattahagræði með því að færa óefnislegar eignir eins og vörumerki til aflandsfélaga. Eignarhaldið á hönnun Swoosh lógói Nike var þannig háttað og sama gilti með höfundarrétt á sílikonbrjóstum.

Einn af stærstu viðskiptavinum Appelby var stærsti hrávöru-miðlari heims, Glencore PLC. Gögnin innihalda tölvupósta, samninga og milljarða lánasamninga fyrir viðskiptaævintýri í Rússlandi, Suður-Ameríku, Afríku og Ástralíu. Þessi gögn ná áratugi aftur í tímann.

Glencore var mjög mikilvægur viðskiptavinur Appelby og á tímabili hafði fyrirtækið sitt eigið herbergi á skrifstofu Appelby á Bermúda.

Fundargerðir frá stjórnarfundum sýna að fulltrúi Glencore, Daniel Gertler, fékk aðstoð ísraelska viðskiptajöfursins Daniel Gertler við að eignast verðmæta námu í Lýðræðislega Lýðveldinu Kongó. En Gertler hefur náin tengsl við fyrirmenni þar í landi. Glencore lánaði fyrirtæki sem talið er vera í eigu Gertler milljónir dollara. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna telur að fyrirtækið sé notað til að fela mútugreiðslur. Nöfn Gertler og Glencore koma ekki fram í skjölum dómsmálaráðuneytisins um fyrirtækið.

Glencore sagði að fyrirtækið hefði grandskoðað fortíð Gertlers. Lögfræðingar hans sögðu að rannsókn dómsmálaráðuneytisins sanni ekki að Gertler hafi gert nokkuð saknæmt og að hann neiti öllum ásökunum um lögbrot. Lögfræðingar hans sögðu að engin lán hafi verið nýtt í „óviðeigandi tilgangi.”

At the morning2.jpg
Appleby er til dæmis einn hlekkur í aflandskeðjunni sem aðstoðaði íþróttamenn, rússneska olígarka og embættismenn við að kaupa þotur, snekkjur og annan lúxus.

Aflandsstarfsemi

Aflandsviðskipti eru alþjóðlegt völundarhús af endurskoðendum, bankamönnum, fjárhaldsmönnum, lögmönnum og milliliðum sem fá borgað fyrir að ganga erinda þeirra ríku og vel tengdu.

Appleby er til dæmis einn hlekkur í aflandskeðjunni sem aðstoðaði íþróttamenn, rússneska olígarka og embættismenn við að kaupa þotur, snekkjur og annan lúxus. Þessir sérfræðingar í aflandsheiminum hjálpuðu Arkady og Boris Rotenberg, rússneskum milljónamæringum og æskuvinum Pútíns að kaupa þotur að verðmæti meira en 20 milljón dollara árið 2013. Bandarísk yfirvöld settu Rotenbergana á svartan lista árið 2014 fyrir stuðning þeirra við „gæluverkefni Pútíns“ og fyrir að hafa landað „himinháum samningum“ með stuðningi rússneskra stjórnvalda. Í kjölfarið sleit Appleby sleit viðskiptum sínum við bræðurnar. Tveimur árum eftir að bannið var sett á fékk fyrirtækið leyfi yfirvalda á eynni Mön til þess að ráðstafa fé í þeim tilgangi að halda félagi annars bróðurins á fyrirtækjaskrá. Rotenberg bræðurnir vildu ekki tjá sig við blaðamenn Süddeutsche Zeitung þegar eftir því var leitað.

Viðskiptavinir Appleby hrósa þeim fyrir sérþekkingu, skilvirkni og alþjóðlegt tengslanet sérfræðinga. Kollegar þeirra hafa margsinnis kosið þá Aflands-lögfræðiskrifstofu ársins.

Gögn síðustu áratuga sýna þó að fyrirtækið hefur á sínum snærum vafasama viðskiptavini og hefur brugðist því að hafa eftirlit með milljóna dollara viðskiptum.

Fjármálaeftirlit Bermúda sektaði fyrirtækið fyrir brjóta á samningi gegn peningaþvætti sem það gerði við Appelby árið 2015. Samingurinn var merktur sem trúnaðarmál. Í ár náði Appleby dómsátt í Kanada upp á 12,7 milljón dollara vegna máls þar sem hjúkrunarfræðingar, slökkviliðsmenn og lögreglumenn sökuðu fyrirtækið um að hafa athugasemdalaust stundað fjármagnsflutninga fyrir meintan skattsvikara. Appleby og hinn grunaði neituðu að hafa gert nokkuð saknæmt.

Fjölskyldufyrirtækið Asiaciti auglýsir að þeir hjálpi viðskiptavinum sínum við að „varðveita auð gegn mannskemmandi lögsóknum“, umbrotum í stjórnmálum og fjölskylduerjum. Fyrirtækið hefur laðað að sér kínverska milljónamæringa, meðlimi Kazakh fjölskyldunnar, sem hafa verið dæmdir fyrir spillingu auk fjölda Bandaríkjamanna, þar á meðal lækna, pókerspilara og refasmára bónda frá Kólóradó.

Asiaciti gögnin sýna að fyrirtækið stofnaði sjóði á Cook eyjum fyrir Kevin Trudeau sem stundaði sölu á vörum í sjónvarpi og hefur einnig efnaðist á sölu sjálfshjálparbóka. Til dæmis The Weight-Loss Cure They Don’t Want You to Know About. Árið 2014 var Trudeau dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að vanvirða dómstóla. Dómarinn í málinu kallaði hann blygðunarlausan svikahrapp sem væri „lyginn inn að beini”. Dómarinn bætti við að Trudeau hefði eitt sinn notað kennitölu móður síns í svikum sínum.

Á heimasíðu Appelby gerir fyrirtækið sig út fyrir að fylgja lögum og reglum of að þeir ráðleggi fyrirtækjum hvernig eigi að stunda lögleg viðskipti. Jafnframt kemur það fram að fyrirtækið líði ekki ólöglegar aðgerðir.

Asiaciti svaraði ekki fyrirspurnum.

Adrian Alhassan, fyrrum starfsmaður Appelby sem sá um innraeftirlit á skrifstofum fyrirtækisins á Bermúda, sagði ICIJ að ef um einbeittum brotavilja væri að ræða þá væri sem lítið sem aflandsþjónustuðilinn gæti gert. „Þessi fyrirtæki eru ekki bandaríska alríkislögreglan,” sagði hann og bætti við að ef fyrirtækin eyddu árum í að rannsaka viðskiptavini sína þá myndu þeir „aldrei koma neinu í verk.”

„Þetta er svipað og að hreinsa strönd,” sagði Alhassan í símaviðtali. „Er mögulegt að segja að verkinu sé lokið ef í lok dags þú hefur ekki fjarlægt allt þangið?”

Aukinn ójöfnuður

Bankaleynd skattaparadísa eru aðlaðandi fyrir einstaklinga sem vilja fela fjármuni og viðskipti frá yfirvöldum.

Í gögnum frá 19 skattaparadísum koma fram nöfn fyrirtækja, stjórnenda og eiganda fyrirtækja sem hafa verið stofnuð í mörgum af helstu aflandssvæðum heims.

Gögnin koma bæði frá lítt og vel þekktum vígum bankaleyndar. Má þar nefna sem dæmi Marshall eyjar, Líbanon og Sankti Kristófer og Nevis. Fyrirtækjaskrár sumra aflandssvæða eru aðgengileg almenningi en ekki er hægt að leita eftir nöfnum í þeim. Annars staðar eins og á Cayman eyjum þarf að greiða 30 dollara fyrir eina síðu af grunnupplýsingum. Sex af skránum eru ekki birtar á internetinu.

Gögnin innihalda meira en eitt þúsund skrár frá Antígva og Barbúda og 600 þúsund skjöl af fyrirtækjaskrá Barbados. Nöfn eiganda og stjórnenda koma ekki þar fram.

Undanfarinn áratug hefur fjöldi alþjóðlegra stofnanna, þar á meðal Evrópusambandið, unnið að því að fá skattaparadísir til að breyta lögum. Tilraunir hafa verið gerðar til að fá milligönguaðila á aflandseyjum til að framkvæma greinargóða úttekt á sínum viðskiptavinum. Sérfræðingar segja að lítið hafi gengið í þeim efnum sökum vankvæða við að breyta alþjóðlegum lögum. Einnig græða valdamiklir einstaklingar og fyrirtæki á núverandi kerfi og streitist því gegn breytingum.

Tilvist aflandssvæða bitnar mest á þeim efnaminni og skattbyrgðin færist því í auknum mæli á herðar millistéttarinnar og launþega. Alþjóðleg stórfyrirtæki fá þar með forskot á minni fyrirtæki og samkeppnisaðila.

Fátækari þjóðir verða mest fyrir barðinu á skattaundanskotum. Lönd eins og og Vestur-Afríku ríkið Búrkína Fasó eiga erfitt með að eiga við skattsvik stórfyrirtækja. Starfsmenn skattayfirvalda búi við slæman aðbúnað og neyðist til að vinna á litlum, illa loftkældum skrifstofum. Búrkína Fasó er meðal fátækustu þjóða heims og árlegar meðaltekjur þar eru lægri en kostnaðurinn við að skrá aflandsfélag á Bermúda. Skattayfirvöld þar í landi sökuðu Glencore um að skulda 29 milljónir dollara í ógreidda skatta sem fyrirtækið mótmælti harðlega. Að lokum þurfti Glencore einungis að greiða eina og hálfa milljón dollara til ríkisins. Glencore er sextánda stærsta fyrirtæki heims og einn af stærstu viðskiptavinum Appelby.

Harrington, prófessor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, segir það skaðlegt að þeir ríku hagnist á aflandssvæðum. „Þar sem ríkir einstaklingar greiða ekki það sem þeir ættu í skatt verða þeir ríku verða ríkari þá verða þeir fátæku fátækari.”

„Sérfræðingar í eignastýringu og þeir sem vinna í aflandsiðnaðinum er það full ljóst að við stefnum hraðbyri að óréttlæti og ójöfnuði ekki ólíkt því ástandi sem leiddi til frönsku byltingarinnar.”

Eftir Pierre Romera, Julien Martin, Dean Starkman, Tom Stites, Manuel Villa, Amy Wilson-Chapman, Miguel Fiandor Gutiérrez, Yacouba Ladji Bama, Tabu Butagira, Delphine Reuter, Mar Cabra, Petra Blum, Harvey Cashore, Frederik Obermaier, Bastian Obermayer, Vanessa Wormer, Šarūnas Černiauskas, Hilary Osborne, Frédéric Zalac, Oliver Zihlmann.

Þýðing: Elías Þórsson

Ljósmyndir: Hidefumi Nogami, The Asahi Shimbun, JAPAN

Grafík: Rocco Fazzari/ICIJ