Nöfn nokkurra tuga íslendinga er að finna í þeim 13.4 milljónum skjala sem 96 fréttamiðlar í 67 löndum byrja að fjalla um í kvöld. Paradísarskjölin eins og þau eru kölluð veita innsýn í skattaparadísir víða um heim um það hvernig efnað fólk og alþjóðleg stórfyrirtæki nýta sér glufur í kerfinu til borga minni skatta eða fela eignir sínar. Skjölin koma innan úr lögfræðistofunni Appleby á Bermúda eyjum og innan úr Asiaciti sjóðnum í Singapúr.  Í skjölunum eru einnig upplýsingar úr 19 fyrirtækjaskrám á þekktum lágskattasvæðum eins og Möltu, Bermúda og Cayman eyjum. Það var þýska blaðið Süddeutsche Zeitung sem komst yfir gögnin og deildi með alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, ICIJ, Reykjavik Media og 96 fjölmiðlum í 67 löndum.

Ólíkt Panamaskjölunum er Ísland smátt í þessum gagnaleka. Nöfn íslendinga er að finna í gögnunum frá Appleby og einnig í fyrirtækjaskrá Möltu. Ekki hafa fundist nöfn íslenskra stjórnmálamanna í gögnunum en þar er hinsvegar að finna nöfn 126 stjórnmálamanna frá 47 löndum. Af norðurlöndunum er Ísland með fæstu nöfnin í gögnunum en norðmenn flest eða um eitt þúsund.  Fréttaskýringaþátturinn Kveikur á RÚV mun fjalla um nokkur íslensk nöfn sem fundust í gögnunum næstkomandi þriðjudag.

Þýska blaðið Süddeutsche Zeitung heldur úti sérstakri vefsíðu á ensku þar sem helstu fréttir úr lekanum munu birtast. Hér er hlekkur á þá síðu

Vefsíðu ICIJ má svo finna hér.