Eftir Will Fitzgibbon og Emiliu Díaz-Struck blaðamenn alþjóðasamtaka rannsóknarblaðamanna, ICIJ.

Neelie Kroes ferðaðist um Evrópu í mörg ár sem einn æðsti embættismaður Evrópusambandsins og varaði stórfyrirtæki við því að þau gætu ekki komið sér undan reglum sambandsins. Þessi hollenski stjórnmálamaður hafði skyldi vel hinn almenna borgara sem hafði áhyggjur af því að þeir þyrftu að greiða fyrir þá sem stungu af og földu hagnaðinn. 

Neelie Kroes var samkeppnismálastjóri Evrópusambandsins frá 2004 til 2010. Hún var valdamikil og viðskiptatímaritið Forbes valdi hana fimm sinnum á lista yfir 100 áhrifamestu konur heims. 

Kroes sagði aldrei frá því að hún væri skráð sem stjórnandi aflandsfélags á Bahamaeyjum – þekktu skattaskjóli sem alþjóðleg fyrirtæki og glæpamenn hafa notað í skjóli leyndar og skattahagræðis.

Kroes var skráð stjórnandi aflandsfélagsins á Bahama frá árinu 2000 til 2009, samkvæmt gögnum sem alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna hafa undir höndum. 

Lögmaður Kroes sagði ICIJ og samstarfsaðilum að hún hefði ekki gefið upplýsingar um stjórnarsetu sína í fyrirtækinu því það hefði aldrei haft neina starfsemi. Lögmaðurinn sagði aðkomu Kroes að fyrirtækinu „tæknileg mistök sem ekki voru leiðrétt fyrr en árið 2009.“ Lögmaður Kroes sagði einnig að fyrirtækið hafi verið stofnað til að rannsaka möguleikana á því að safna fjármagni til að kaupa eignir af bandaríska orkurisanum Enron Corp. Ekkert varð af kaupunum og Enron var úrskurðað gjaldþrota eftir að upp komst um bókaldssvik fyrirtækisins. 

Vicky Cann, rannsakandi og stjórnandi samtakanna Corporate Europe Observatory segir mikilvægt að greint sé frá öllum tengslum við fyrirtæki til að forðast hagsmunaárekstra. „Sem samkeppnismálastjóri með ábyrgð á viðskiptum var nauðsynlegt fyrir hana að greina frá öllum tengingum (ekki bara sumum) sínum við fyrirtæki til að forðast hagsmunaárekstra,“ segir Cann. Slík yfirhylming, jafnvel þótt óviljandi sé getur „grafið undan trausti almennings á öllum stofnunum Evrópusambandsins.“

Upplýsingarnar um tengsl Kroes við aflandsheiminn eru á meðal gagna  sem lekið var til þýska stórblaðsins Suddeutsche Zeitung og ICIJ ásamt samstarfsmiðlum – gögn sem veita upplýsingar um fyrirtæki sem stofnuð voru á Bahama. Gögnin sem koma frá fyrirtækjaskrá Bahama sýna nöfn stjórnenda og eigenda yfir 175.000 fyrirtækja og sjóða sem stofnuð voru á Bahama frá árinu 1990 til ársins 2016. 

Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna, Süddeutsche Zeitung og samstarfsmiðlar veita í dag almenningi aðgang að þessum gögnum frá Bahama sem nú verða aðgengileg í fyrsta sinn í gegnum ókeypis gagnagrunn. Gögnin frá Bahama hafa verið sameinuð gögnunum úr Panamalekanum og öðrum lekum sem gerir gagnagrunninn að þeim stærsta í heimi á sviði aflandsfyrirtækja. 

Þessar nýju upplýsingar varpa ljósi á  lítt þekkt tengsl fyrirtækja í eigu fyrrum eða núverandi stjórnmálamanna frá Suður ameríku, Afríku, Evrópu, Asíu og mið-austurlöndum. 

Í Nassau, höfuðborg Bahama er hægt að nálgast upplýsingar um fyrirtæki. Gagnagrunnur á veita þessar upplýsingar, en þær upplýsingar eru á vegum stjórnvalda á Bahama og oft af skornum skammti. Að auki kostar að minnsta kosti 10 dollara að kaupa upplýsingar um hvert fyrirtæki sem brýtur í bága við tilmæli alþjóðasamtaka fyrirtækjaskráa sem hvetur til að slíkar upplýsingar séu ókeypis. 

Gögnin sem eru gerð opinber í dag veita grunnupplýsingar um aflandsfélög: nafn fyrirtækisins, hvenær það var stofnað, heimilisfang og í sumum tilvikum nöfn stjórnenda fyrirtækjanna. Þessar upplýsingar eru nauðsynlegar í nútímaviðskiptum og þær eru líka nauðsynlegar fyrir lögregluyfirvöld og aðra sem rannsaka hvítflippaglæpi.

„Upplýsingar úr fyrirtækjaskrám eru gríðarlega mikilvægar,“ segir Debra LaPrevotte, fyrrverandi lögreglumaður FBI sem meðal annars hefur rannsakað hundruð milljóna dollara mútu- og spillingarmál í skattaskjólum sem tengjast stjórnmálamönnum frá Úkraínu, Nígeríu og Bangladesh. „Aflandsfyrirtæki eru oft notuð sem milliliðir fyrir peningaþvott og stundum eru þessi aflandsfyrirtæki einungis notuð til að opna bankareikninga, þar sem fyrirtækjaskráin gæti tilgreint raunverulega eigendur og þar með verið sönnunargögn.“

Kíkt á bakvið tjöldin

Ólíkt Panamaskjölunum sem sýna ítarleg tölvusamskipti, samninga, hljóðupptökur og önnur gögn frá einni lögmannsstofu, eru upplýsingarnar í Bahamaskjölunum einfaldari og óljósari. Þær sýna ekki með öruggum hætti hvort nöfn stjórnenda fyrirtækjanna í gögnunum séu raunverulegir eigendur eða hvort um sé að ræða fólk sem fær greitt fyrir að sitja í stjórnum fyrirtækjanna án þess að hafa hugmynd um raunverulega starfsemi þeirra. 

En þegar þessi nýju gögn frá Bahama eru sameinuð Panamagögnunum veita þau innsýn í aflandsviðskipti stjórnmálamanna, glæpamanna og fyrirtækjastjórnenda og auk þess bankamanna og lögfræðinga sem aðstoða við að fela og færa peningana. 

Meðal upplýsinga úr þessum nýja leka eru nöfn 539 umboðsmanna sem starfa sem milliliðir milli stjórnvalda á Bahamaeyjum og viðskiptavina sem vilja stofna aflandsfyrirtæki. Eitt þeirra er Mossack Fonseca, lögmannsstofan sem komst heimsfréttirnar þegar Panamaskjölin voru gerð opinber í vor. Mossack Fonseca stofnaði 15.915 aflandsfélög á Bahama sem var þriðja stærsta markaðssvæði lögmannsstofunnar og á meðal þeirra arðbærustu. 

Panamaskjölin sýna hvernig Mossack Fonseca aðstoðaði viðskiptavini sína við að leyna eignarhaldi sínu í fyrirtækjum á Bahama í skjöli leyndar og að sniðganga alþjóðlegan þrýsting um gegnsæi í skattamálum. 

Bahamaskölin sýna einnig aflandsviðskipti forsætisráðherra og annarra ráðherra, kóngafólks og dæmdra glæpamanna. Almennt er ekki ólöglegt að eiga eða stjórna aflandsfyrirtækjum og að baki slíkum fyrirtækjum liggja oft viðskiptaleg sjónarmið. Sérfræðingar í gegnsæi segja þó að það sé mikilvægt að opinberir embættismenn greini frá tengingum þeirra við aflandsfyrirtæki. 

Meðal stjórnmálamanna og embættismanna sem fundist hafa í Bahamaskjölunum eru Carlos Caballero Argáe orku- og námumálaráðherra Kolombíu frá árinu 1999 til 2001. Hann  var skráður forstjóri og stjórnandi Bahamíska fyrirtækisins Pavc Properties Inc. á árunum 1997 til 2008. Ráðherrann fyrrverandi var einnig skráður stjórnarmaður Norway Inc, fyrirtækis sem var starfandi á Bahama frá 1990 til 2015.

Í samtali við alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna, ICIJ, sagði ráðherrann að Norway Inc ætti bankareikning í Miami sem væri í eigu föður hans og peningum af bankareikningnum hefði verið skipt á milli bræðra hans eftir að faðir þeirra lést. Pavc Properties áttu íbúð í Miami að sögn ráðherrans og að afskiptum hans af fyrirtækinu hafi lokið árið 2008 þegar hann sendi sinn hluta í fyrirtækinu. Ráðherrann sagði að lögmenn hefðu ráðlagt honum og fleirum að stofna fyrirtæki á Bahama. Hann neitaði að um hagsmunaárekstra væri að ræða en að fyrirtækið hefði verið stofnað á Bahama í skattalegum tilgangi. 

Bahamagögnin sýna að Kroes fyrrum samkeppnismálastjóri Evrópusambandsins hafi verið stjórnarmaður í Mint Holdings Ltd frá júlí 2000 til október 2009. Fyrirtækið var stofnað á Bahama í apríl árið 2000 og er enn starfandi. 

Kroes gerði ekki grein fyrir tengslum sínum við fyrirtækið í hagsmunaskráningu árið 2010 þegar hún var samkeppnismálastjóri og heldur ekki þegar hún var tæknimálastjóri árið 2014. 

Samkvæmt reglum Evrópusambandsins ber æðstu stjórnendum sambandsins að greina frá öllum þeirra viðskiptalegu tengslum síðustu 10 ára og þar á meðal stjórnarsetum, stjórnendastörfum og ráðgjafastörfum sem tengjast viðskiptum.

Aðrir stjórnarmenn Mint Holdings eru jórdanski viðskiptamaðurinn Amin Badr-El-Din sem var skráður í stjórn félagsins samkvæmt gögnum frá júlí 2015. 

Badr-El-Din stofnaði UAE Offset Group, fyrirtæki sem tengist vopnasölu til sameinuðu arabísku furstadæmanna. UAE Offset Group gerði nýlega samning við vopnaframleiðandann Lockheed Martin þar sem Kroes starfaði sem lobbýisti áður en hún var skipuð ráðherra samkeppnismála hjá Evrópusambandinu. 

Þegar Kroes var skipuð samkeppnismálastjóri hjá Evrópusambandinu lofaði hún því að forða fyrirtækjum frá sektum sem hún hafði tengingu við. Andstæðingar hennar höfðu áhyggjur af því að hún tæki ekki nógu hart á viðskiptalífinu en Kroes gekk undir gælunafninu „Steely Neelie“ þar sem hún lagði háar sektir á fyrirtæki sem fóru ekki að samkeppnislögum. 

Frá því Kroes lét af störfum hjá Evrópusambandinu hefur hún hinsvegar gagnrýnt arftaka sinn harðlega fyrir að hafa lagt 13 milljarða punda skattasekt á tæknifyrirtækið Apple. „Frekar en að leggja álögur á örfá lönd og fyrirtæki vegna fortíðarmála ættum við frekar að leggja áherslu á að skapa sanngjarnt skattkerfi til framtíðar. Ágreiningur um skattaálögur snýst ekki um það hvort fyrirtæki greiði skatta á sanngjarnan hátt, heldur hvar skattarnir skuli greiddir,“ sagði Kroes í grein í breska dagblaðinu Guardian frá 1. September. 

Kroes sem er 75 ára gömul situr í stjórnum nokkurra fyrirtækja og er einnig ráðgjafi Bank of Ameriand, Merril Lynch og Uber. Hún er áhrifamikil í ríkisstjórnarflokki Hollands, flokki fólksins fyrir frelsi og lýðræði. 

Kroes hafnaði allri gagnrýni á viðskiptatengsl sín. Lögmaður hennar sagði hana neita því að „hún hefði lent í vandræðum vegna tengsla sinna við viðskiptalífið.“

Hagsmunaskráning fyrrum samkeppnismálastjóra Evrópusambandsins þar sem ekki var greint frá tengslum við Mint Holdings var „gerð í góðru trú“ og „samkvæmt hennar bestu vitund,“ sagði lögmaður Kroes. „Gengið var út frá því að hún væri ekki stjórnandi fyrirtækisins þar sem þörfin fyrir það var ekki lengur til staðar.“

„Kroes mun greina forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá  yfirsjón sinni og axla ábyrgð á henni,“ segir lögmaður hennar. 

Badr-El-Din segir að „Mint Holdings hafi verið stofnað í þeim eina tilgangi að hafa umsjón með kaupum á alþjóðlegum eignum í orkugeiranum, aðallega frá Enron. Í lok sumars árið 2000 var ljóst að ekkert yrði af þeim viðskiptum.“

New York Times hefur fjallað um aðkomu Badr-El-Din um kaupin á eignum Enron en aldrei hefur verið fjallað um aðkomu Kroes að þeim kaupum sem svo aldrei urðu. 

Fram til ársins 2009 var Kroes titluð sem stjórnandi Mint Holdings þar sem „lögmenn framfylgdu ekki tilmælum um að fjarlægja nafn Kroes sem stjórnanda Mint Holding,“ segir Badr-El-Din. „Um leið og þessi mistök komu í ljós árið 2009 voru þau leiðrétt.“

Sviss vestursins

Bahamaeyjar samanstanda af 700 eyjum, sem margar hverjar eru minni en einn ferkílómetri að stærð. Bahama er í hópi þjóða sem hafa sýnt tregðu við að deila skattaupplýsingum enda þrífst starfsemi aflandsfyrirtækja á leynd. Í tæp hundrað ár hafa Bahamaeyjar verið á ratsjánni hjá skattayfirvöldum um allan heim. 

Á þriðja áratugnum rannsökuðu bandarísk skattayfirvöld skattaundanskot bandaríkjamanna í Sviss og á Bahamaeyjum sem kynntu sig sem „Sviss vesturheims.“ Meiri þungi var lagður í rannsóknir skattayfirvalda í kringum 1960 þegar bandarískum yfirvöldum varð ljóst að glæpaforingjar áttu viðskipti á Bahamaeyjum. Bandarískar bankainnistæður á Bahama áttfölduðust frá 1973 til 1979. Í lok áttunda áratugarins var talið að 20 milljarðar bandaríkjadala færu árlega til Bahamaeyja – peningar sem komu úr glæpastarfsemi og vegna skattsvika. 

Bandarísk skattayfirvöld settu í gang leynilega rannsókn sem var kölluð „Operation Tradewinds” þar sem starfsmenn skattayfirvalda komust yfir upplýsingar um 308 bandaríska ríkisborgara og þar á meðal mafíósa, frægt fólk og stóreignamenn. 

Rannsóknin leiddi til saksókna og 100 milljón dollara sekta, en var hætt árið 1975 vegna umdeildra rannsóknaraðferða. 

Árið 2000 voru Bahamaeyjar settar á svartan lista OECD vegna skattastefnu sinnar. Stjórnvöld á Bahama brugðust hratt við og samþykktu ný lög sem varð til þess að OECD strokuðu eyjarnar af svarta listanum. Árið 2009 lentu Bahamaeyjar á svokölluðum gráum lista OECD vegna skattastefnu sinnar.

Bahamaeyjar eru miðdepill skattarannsókna í Bandaríkjunum. Walter C. Anderson fjarskiptamógúll í Bandaríkjunum faldi raunverulegt eignarhald á fyrirtækjum sínum með aflandsfélögum á bresku jómfrúareyjum og Bahama. Anderson var dæmdur í fangelsi árið 2007 fyrir 200 milljón dollarar skattaundanskot. Árið 2007 játaði fasteignamógúllinn Igor Olenicoff að hafa svikið tæpar 200 milljónir dollara undan skatti. Oliencoff sem stýrði tveimur fyrirtækjum með bankareikninga á Bahamaeyjum sagði í samtali við viðskiptatímaritið Forbes fyrr á þessu ári að „hann hefði valið aflandsþjónustu á Bahamaeyjum.“

Í rannsókn bandaríska dómsmálaráðuneytisins á svissneska bankanum USB lék Bahama stórt hlutverk. Á árunum 2009 til 2014 voru bandarískir ríkisborgarar saksóttir vegna aflandsviðskipta á Bahamaeyjum. Meðal þeirra sem voru saksóttir voru ráðgjafi í Kaliforníu, stáljöfur í Illinois, eigandi tölvufyrirtækis í Ohio, olíuráðgjafi í Texas, hótel eigandi í Flórída og bóndi í Nýju Mexíkó.

Í mörgum málum hafa bandarísk yfirvöld átt í erfiðleikum með að vita hvar þeir eiga að byrja rannsóknir sínar. Samkvæmt lögum á Bahama er raunverulegum eigendum aflandsfyrirtækja skylt að skrá nöfn sín í fyrirtækjaskrá landsins. Hinsvegar finnast nöfnin oft ekki og ekki er hægt að leita eftir nöfnum stjórnendanna án þess að vita nafn aflandsfyrirtækisins. 

Exxon Azerbaijan Caspian Sea Limited, er risastórt orkufyrirtæki í Azerbaijan, einræðisríki með mikla olíuauðlindir. Fyrirtækið skráir enga stjórnendur í fyrirtækjaskrána á Bahama, en í gögnum sem alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna hafa séð eru 19 stjórnendur tengdir fyrirtækinu. Annað fyrirtæki skráð á Bahamaeyjum, Equatorial Guinea LNG Holdings Limited sem er tengd afríkuríkinu Miðbaugs Gíneu hefur enga stjórnendur samkvæmt opinberri fyrirtækjaskrá á Bahama. Gögn sem alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna hafa séð sýna aðkomu háttsettra einstaklinga í stjórnkerfi Miðbaugs Gíneu að fyrirtækinu, þar á meðal bróðir forsetafrúar landsins og fjórir fyrrum og núverandi orkuráðherrar landsins. 

Árið 2014 kannaði OECD aðgerðir stjórnvalda á Bahama gegn peningaþvætti og niðurstaðan var að helmingur þeirra úrræða sem talinn er nauðsynlegur í baráttunni gegn peningaþvætti stóðst ekki kröfur. Meðal annars var ekki gerð krafa um að bankar eða fjármálastofnanir fengju upplýsingar um raunverulega eigendur fyrirtækja eða sjóða. Bahama er á lista þrjátíu landa sem OECD telur ósamvinnuþýð í aðgerðum gegn skattaundanskotum.

Nicholas Shaxson höfundur bókarinnar Treasure Islands: Tax Havens and the Men Who Stole the World, sagði að Bahama væri eitt af nokkrum skattaskjólum með verra orðspor en stærri skattaskjólin, til að mynda Sviss.

Bahamaeyjar eru á „pari við Panama þegar kemur að ásókn þeirra og umburðarlyndi gagnvart óhreinum peningum,“ sagði Shaxson. 

Nýlega sagði Shaxson að á meðan stjórnvöld víða um heim krefja skattaskjól til að deila bankaupplýsingum til skattayfirvalda til að berjast gegn skattsvikum, hafa stjórnvöld á Bahama barist gegn því. 

„Þeir segja: Á meðan allir aðrir leggja áherslu á gagnsæi, þá eru leyndarmál þín örugg hjá okkur,“ segir Shaxson og segir stjórnvöld á Bahama leita allra leiða til að sneiða hjá upplýsingagjöf til annarra skattayfirvalda.

Stjórnvöld á Bahamaeyjum svöruðu ekki spurningum alþjóðasamtaka rannsóknarblaðamanna um málið. Þau hafa látið hafa það eftir sér að öllum reglum OECD sé fylgt hvað varði upplýsingaskipti skattayfirvalda.

Einvaldar, þjófræði og snekkjur

Fyrirtæki, sjóðir og bankareikningar á Bahama hafa fundist í nokkrum rannsóknum sem tengjast einræðisherrum og stjórnmálamönnum. 

Sonur Augusto Pinochet, hins alræmda einræðisherra Síle, notaði fyrirtæki á Bahama, Meritor Investment Limited til að koma 1,3 milljónum dollara til föður síns. Sonur Pinochet, Marco Antonio, sagði ásakanirnar vera lygar og neitaði því að hafa gert nokkuð ólöglegt á Bahama.  Sjálfur átti Pinochet fyrirtækið Ashburton Company Limited á Bahama sem stofnað var árið 1996. Abba Abacha, sonur Sani Abacha fyrrum forseta Nígeríu átti 350 milljónir dollara á bankareikningum í Lúxembúrg sem voru frystir í alþjóðlegri rannsókn á hvarfi 3 milljarða dollara úr ríkissjóði Nígeríu á fimm ára valdatíma föður hans. 

Fyrirtæki á Bahama og bankareikningar þar í landi voru stór þáttur í svikafléttum fyrrverandi stjórnmálamanna í Grikklandi, Úkraínu, Kúvait og Trinidad og Tobago og í ólöglegum “kickbacks?” til ríkisstjórnar Saddam Hussein í tengslum við „Oil for food“verkefni sameinuðu þjóðanna í Írak.

Fimm stjórnmála og áhrifamenn sem einnig eru í Panamaskjölunum tengjast Bahamaskjölunum.  Þeirra á meðal eru Sheikh Hamad bin Jassim bin Jaber Al Thani, fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra Quatar sem á fyrirtækið Trick One Limited á Bahama. Í janúar 2005 þegar Al Thani gengdi stöðu utanríkisráðherra Quatar skrifaði hann undir lánasamning uppá 53 milljónir dollara. Trygging fyrir láninu var 133 metra verðlaunaskúta Al Thani sem metian var á 300 milljónir dollara. Lögmaður Al Thani vildi ekkert tjá sig um aðkomu hans að fyrirtækinu á Bahama.

Forseti Argentínu, Mauricio Macri, faðir hans Francisco og bróðir hans Mariano stjórnuðu fyrirtækinu Fleg Trading Ltd sem stofnað var á Bahama árið 1998 og afskráð 11 árum síðar. Þegar Macri var borgarstjóri Buenos Aires á árunum 2007 og 2008 greindi hann ekki frá tengslum sínum við Fleg Trading í hagsmunaskráningu sinni. Í kjölfarið á birtingu Panamaskjalanna í vor óskaði saksóknari í Argentínu eftir upplýsingum frá Panama í tengslum við rannsókn á því hvort Macri hafi vísvitandi leynt aðkomu sinni að fyrirtækinu. 

Talsmaður forsetans sagði í samtali við ICIJ að hann hefði ekki greint frá tengslum sínum við Fleg Trading Ltd þar sem engin fjárhagsleg tengsl væru til staðar og hann ætti ekki hlutabréf í fyrirtækinu. 

Bahama tengist einnig fyrirtækinu Blairmore Holdings Ltd, fjárfestingasjóði stjórnað af Ian Cameron, föður fyrrum forsætisráðherra Bretlands, David Cameron. Ian Cameron lést 8. September 2010. Í kjölfarið á birtingu Panamaskjalanna neyddist David Cameron til að játa að hann sjálfur hagnaðist persónulega vegna fjárfestingasjóðsins, sem hafði yfir að ráða milljónum punda vel efnaðra fjölskyldna. Sjóðurinn var stofnaður í Panama en stjórnað frá Bahama og með fléttum þessara aflandssvæði komst sjóðurinn hjá því að greiða skatta í Bretlandi. 

Mossack Fonseca svaraði ekki fyrirspurnum ICIJ þegar eftir því var leitað. Áður hafði lögmannsstofan tjáð ICIJ: „Sem umboðsmenn aðstoðum við sjaldan við stofnun fyrirtækja og áður en við samþykkjum að vinna með viðskiptavinum, gerum við ítarlega rannsókn á þeim sem í öllum tilvikum stenst lög og reglur eins og krafist er af okkur.“

Ánægðir með stöðnun

Mossack Fonseca benti sérstaklega á leyndina á Bahama og varnarbaráttu stjórnvalda í garð alþjóðlegra skattayfirvalda þegar lögmannsstofan kynnti þjónustu sína í landinu.

Árið 2003 þegar Bahama reis aftur upp eftir að hafa verið sett á svartan lista vegna peningaþvættis hitti starfsmaður Mossack Fonseca viðskiptavin til að ræða þörfina á „öflugri kynningarherferð...sem átti að bæta slæman orðstý Bahama vegna leyndarinnar sem þar ríkti.“ Upplýsingar voru „sjaldan afhentar,“ fullvissuðu þeir hvern annan, samkvæmt innanhússfundargerðum úr Panamagögnunum. 

Árið 2009 stakk starfsmaður Mossack Fonseca upp á því að færa eignir bandarísks viðskiptavinar í sjóð á Bahamaeyjum til að tryggja trúnað á meðan á gjaldþrotameðferð viðskiptavinarins stóð. Árið 2014 ráðlagði Mossack Fonseca viðskiptavini frá Nýja sjálandi að hann notaði bankareikninga á Bahama til að leyna eignarhlut sínum í fyrirtæki. Árið 2015 notfærði spænskur viðskiptavinur bankareikning á Bahama til að fela hálfa milljón dollara frá skattayfirvöldum á Spáni. Annar spánverji keypti þjónustu gervi stjórnarmanna Mossack Fonseca til að forðast að nafn hans birtist í fyrirtækjaskrá.

Talsmenn skattaumbóta hafa gagnrýnt skattaskjól og þar á meðal Bahamaeyjar fyrir að segjast leggja áherslu á gegnsæi með því að gera skiptisamninga við önnur skattaskjól eða smáríki sem skipta litlu máli í hinu svarta hagkerfi aflandsheimsins.  Sem dæmi gerðu stjórnvöld á Bahamaeyjum skiptisamning við Grænland árið 2010 en á Grænlandi eru íbúar 57 þúsund. Á fundi árið 2014 grínuðust starfsmaður Mossack Fonseca og svissneskur viðskiptavinur með það að sambærilegur samningur hefði verið gerður á milli Grænlands og Sviss, samkvæmt innanhúss fundargerður Mossack Fonseca.

Í kynningarefni stjórnvalda á Bahama kemur fram að landið bjóði uppá „einstaka lausn“ í samræmi við alþjóðalög en verndi samt viðskiptavini aflandsþjónustu landsins. Stjórnvöld fullvissa áhugasama viðskiptavini að þau sendi mjög seint frá sér fyrirtækjaupplýsingar miðað við önnur lönd og jafnvel afhenti aðeins stjórnvöldum annarra skattaskjóla slík gögn. 

Stjórnvöld á Bahama hafa ekki skrifað undir alþjóðasamning um skipti á skattagögnum. OECD sem sér um framkvæmd samningsins segir hann vera „sterkasta vopnið í baráttunni gegna skattahagræði og skattsvikum.“ Í ágúst höfðu 103 þjóðir skrifað undir samninginn og þar á meðal þekkt skattaskjól og sum af fátækustu ríkjum heims. 

Stjórnvöld á Bahama segja að kostnaður og flókin framkvæmd slíkra skiptisamninga á milli skattayfirvalda sé of hár og að leynd viðskiptavinarins sé í hættu.  Stjórnvöld á Bahama segjast frekar vilja standast alþjóðalög með tvíhliða samningum eða samningum  við eitt og eitt ríki. „Ég efast um að ríki sem vilja marghliða samninga um þessi mál sé alvara um að standa við slíka samninga,“ segir Reuven Avi-Yonah, prófessor í skattalögum við háskólann í Michigan og fyrrum ráðgjafi bandaríkjastjórnar og OECD í skattamálum. 

Marghliða samningar á milli ríkja „er nýtt alþjóðlegt viðmið,“ segir Avi-Yonah prófessor og bætir við: „Ríki  sem er alvara með að skiptast á slíkum upplýsingum þurfa að skrifa undir slíka samninga. En ég áhyggjur af því að peningar muni flæða til þessarar ríkja og að engar upplýsingar verði veittar.“

Stjórnvöld á Bahama geta hinsvegar glaðst  því á þessu ári má búast við að stjórnvöld hagnist um tæpar 18 milljón dollara vegna opinberra gjalda aflandsfyrirtækja á Bahama. 

Nýlega hittust fulltrúar ýmissa þjóða heims til að ná samkomulagi um skipti á skattagögnum milli þjóða. Skipuleggjendur fundarins sögðu að fljótlega gætu skattsvikarar hvergi falið sig. Fjármálaráðherra Bahamaeyja sagði í samtali við fréttamenn eftir fundinn: „Við fengum allt sem við vildum.“