Hannes Þór Smárason, oftast kenndur við FL-Group, var með prókúru í panamíska félaginu Pace Associates Corp. þegar það fékk þriggja milljarða króna lán frá Fons eignarhaldsfélagi árið 2007. Pace fékk einnig 50 milljóna evra lán frá Landsbankanum gegn veði í hlutabréfum í félaginu sjálfu. Lánveiting Fons til félags Hannesar hefur verið til rannsóknar hjá héraðssaksóknara en málið hefur verið látið niður falla.

Hlutabréf í félaginu voru gefin út á handhafa en í þeim tilvikum var það oftar en ekki prókúruhafinn sem var hinn raunverulegi eigandi. Jafnvel þó að Hannes hafi ekki verið raunverulegur eigandi félagsins hafði hann svo mikil völd með prókúru sinni að hann gat farið með eignir félagsins og það sjálft eins og hann væri eigandinn. Hann hafði því yfirráð yfir milljörðunum.

Þetta kemur fram í gögnum frá panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca sem lekið var til Süddeutsche Zeitung, sem deildi þeim með alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, sem svo aftur deildi þeim með rúmlega 100 fjölmiðlum, þar á meðal Reykjavik Media.

Með prókúru frá 2007 til 2015

Í gögnunum kemur fram að prókúra Hannesar í Pace var í gildi allt fram til 2010 þegar hún rann út. Hún var þá endurnýjuð og átti að gilda fram í apríl á síðasta ári. Félaginu var þó slitið samkvæmt fyrirtækjaskránni í Panama síðar árið 2010. Þegar prókúra Hannesar var endurnýjuð árið 2010 fengu þrír starfsmenn lögmannsstofunnar sem þá hélt utan um félagið fyrir eiganda þess, útgefnar prókurur í félaginu.

Félagið var í fyrstu keypt af Landsbankanum í Lúxemborg árið 2007 af Mossack Fonseca. Bankinn keypti reglulega félög af hillu lögmannsstofunnar með þessum hætti. Í þessu tilviki hafði bankinn sérstaklega óskað eftir 30 félögum sem stofnuð voru á fyrrihluta ársins 2005. Fljótlega eftir að félagið var keypt árið 2007 lét Landsbankinn gefa út prókúru fyrir Hannes Smárason.

Prókúra hans er fyrst dagsett 30. apríl 2007, sama dag og lánasamningurinn á milli Fons eignarhaldsfélags ehf. og Pace Associates Corp. er dagsettur. Lánasamningurinn  kemur þó fyrst fram í gögnum Mossack Fonseca í júlí árið 2008. Heimild til stjórnarmanna í Pace, sem voru í raun gervistjórnendur, til að skrifa undir lánið er sérstaklega athyglisverð. Fjórar mismunandi dagsetningar má greina í skjalinu; 30. apríl 2007, 30. apríl 2008, 29. mars 2008 og 29. mars 2007.

Hannes Smárason Pace
Hannes

Skjölin send árið 2008

Heimildin var undirrituð af starfsmanni Landsbankans í Lúxemborg, sem umsjónaraðila hlutabréfanna í Pace. Sá breytti dagsetningunni sem prentuð hafði verið á skjalið með penna og færði hana slétt ár aftur í tíman. Þegar kom að því að skrifa undir skjalið og skrá dagsetningu undirskriftarinnar byrjar hann á því að skrifa árið 2008 en breytir því í 2007. Sjálfur tölvupósturinn með skjalinu er sendur 4. júlí 2008.

Þetta var meðal þess sem sérstakur saksóknari, síðar héraðssaksóknari, hafði til rannsóknar, samkvæmt heimildum Reykjavik Media. Rannsókn málsins beindist fyrst og fremst að lánveitingunni út úr Fons frekar en hvert peningarnir fóru. Meðal þess sem hefur vakið athygli varðandi hana er sú staðreynd að lánið var fært niður í bókum Fons fljótlega eftir að það hafði verið veitt.

Samkvæmt gögnum Reykjavik Media vakna upp spurningar hvort lánasamningurinn hafi verið útbúinn og undirritaður eftir að búið hafði verið að færa lánið niður í bókum Fons. Lánið var afskrifað í tveimur hlutum. Á stjórnarfundi í maí 2007 var lánið fært niður um 50 prósent. Í byrjun mars árið 2008 var svo bókað að lánið mætti teljast að fullu tapað.

Peningarnir sagðir hafa endað á Indlandi

Í umfjöllun um lánveitingu Fons til Pace eftir hrun kom meðal annars fram að talið væri að Pace hafi verið notað til að fjármagna fasteignaverkefni á Indlandi. Peningarnir hafi farið til að fjármagna Terra Firma India SàRL í Lúxemborg. Ekki er hægt að fullyrða að svo hafi verið en í gögnunum kemur fram að Pace Associates Corp. og félagið Yucca Global Inc., sem var undir stjórn Magnúsar Ármann, hafi gefið sérstaka yfirlýsingu um að það myndi ekki koma í veg fyrir yfirtöku eða kaup á hlutum Kevin Stanford í félaginu. Stanford var í miklum viðskiptum við íslensku bankana fyrir hrun, þó helst Kaupþing banka.

Það eru margar tengingar í gögnunum við Terra Firma. Landsbankinn virðist hafa verið allt um lykjandi í málinu. Bankinn stofnaði og lánaði Pace Associates Corp. fúlgur fjár en samkvæmt gögnunum frá Mossack Fonseca átti bankinn sjálfur hlut í Terra Firma. Þá sýna gögnin einnig að Landsbankinn í Lúxemborg setti upp og lánað peninga inn í annað Panamafélag, Taquila Corp., sem kom að skipulagningu Terra Firma. Taquila Corp. var undir stjórn Sanjay Dhir sem var framkvæmdastjóri Terra Firma, og samstarfsmaður Stanford.

Margir komu að Terra Firma í Lúxemborg; þar á meðal félög tengd Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Landsbankinn, Glitnir, Kevin Stanford og fyrrverandi eiginkona hans Karen Millen. Gögnin staðfesta ekki að peningar hafi farið frá Pace til Terra Firma en Hannes Smárason var viðriðinn bæði félögin og ljóst að Pace hafði tengingu við hlut Stanford í Terra Firma.

Lánið frá Fons rannsakað

Pace-málið, eða Panamafléttan eins og málið hefur líka verið kallað, hefur verið til rannsóknar undanfarin ár. Embætti sérstaks saksóknara, sem síðar rann inn í embætti héraðssaksóknara, rannsakaði það. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að ekki var talið að málið væri líklegt til sakfellingar og því málið látið niður falla. Skiptastjóri Fons eignarhaldsfélags reyndi í þrjú ár að hafa uppi á peningunum án árangurs.

Sjálfur gaf Pálmi Haraldsson, stjórnandi og einn eiganda Fons, þá skýringu í skýrslutöku hjá skiptastjóranum að peningarnir hafi verið lán vegna fasteignaverkefnis á Indlandi. Í viðtali við Stöð 2 árið 2011 sagði Pálmi að verkefnið hefði verið kynnt sér af Landsbankanum og Hannesi. Í samtali við Reykjavik Media segir Pálmi að tilgangur Fons hafi verið að standa í viðskiptum sem þessum. Vísar hann til samþykkta félagsins. Að öðru leyti tjáir hann sig ekki um málið.

Árið 2010 furðaði Pálmi sig á því í samtali við DV að málið væri ekki afgreitt af hálfu skiptastjórans. „Ég skil þá ekki af hverju bústjórarnir ásaka mig ekki um að styðja al-Kaída eða Contra-skæruliða. Ég er fyrir löngu búinn að gefa skýrslu hjá bústjóra um þetta fjárfestingaverkefni sem tapaðist. Það er ekki meiri frétt í þessu er öðru sem tapast hefur í hruninu,“ sagði Pálmi þá.

Félagið gert óvirkt árið 2010

Árið 2010 fjallaði RÚV um fléttuna og var þar meðal annars fullyrt að peningarnir hefðu ratað aftur heim til Íslands og í vasa Jóns Ásgeirs, Hannesar og Pálma sjálfs. Pálmi og Jón Ásgeir stefndu fréttamanninum Svavari Halldórssyni fyrir dóm vegna umfjöllunarinnar. Þau málaferli enduðu á því að Svavar var sýknaður í héraði en dæmdur til greiðslu bóta til Jóns Ásgeirs sem áfrýjaði því til Hæstaréttar.

Panamagögnin sýna ekki hvar þrjú þúsund milljónirnar enduðu sem Fons lánaði Pace í apríl 2007. En gögnin sýna aðkomu Hannesar Smárasonar að málinu. Ekki náðist í Hannes við vinnslu fréttarinnar. Gögnin sýna ótvírætt að hann hafði full yfirráð yfir félaginu og gat sýslað með eigur þess, þar á meðal milljarðana þrjá, eins og hann vildi.

Félagið varð óvirkt þann 24. nóvember árið 2010 en samkvæmt upplýsingum úr panamaísku fyrirtækjaskránni var það á endanum afskráð 15. júlí árið 2012.