Hreiðar Már Sigurðsson, fjárfestir og fyrrverandi forstjóri Kaupþings, stofnaði eignarhaldsfélag í skattaskjólinu Tortólu árið 2010 og færði það yfir á eiginkonu sína, Önnu Lísu Sigurjónsdóttir, og Arndísi Björnsdóttur, eiginkonu Sigurðar Einarssonar, eftir að hann var dæmdur í Al Thani-málinu. Félaginu á Tortólu, Robinson Associates Inc., er stýrt af eignastýringarfyrirtækinu Chartwell & Partners í Sviss. Þetta kemur fram í Panamaskjölunum, gögnunum frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca í Panama. Fréttin er unnin í samstarfi við Reykjavík Media. 

Nýjustu tölvupóstarnir um starfsemi Robinson Associates eru einungis tæplega eins árs gamlir – í gögnunum er að finna pósta frá 25. nóvember árið 2015 – og virðist félagið því vera virkt ennþá. Í Panamaskjölunum kemur fram að félagið eigi ekki neinar eignir umfram annað Tortólafélag sem heitir Njordcap Holdings Ltd. Í svörum svissneska eignastýringarfyrirtækisins í gögnunum kemur hins vegar fram að félagið Njordcap sé „þátttakandi í viðskiptum í Evrópu“. Ekki kemur fram hvaða viðskipti þetta eru. 

Hreiðar Már vill ekki ræða um eignir Robinson eða Njordcap við Fréttatímann. „Nei, það get ég ekki. Ég hef ekki áhuga á að tjá mig um þessi mál við þig.“

Í Panamaskjölunum kemur fram að í lok apríl árið 2014 sendi starfsmaður Chartwell & Partners tölvupóst til Mossack Fonseca þar sem beðið var um að gögn um eignarhald Robinson Associates Inc. yrðu dagsett aftur í tímann: „Við höfum fengið fyrirmæli um að breyta hluthafa ROBINSON ASSOCIATES INC.: Eigendabreyting á Robinson Associates Inc : 50% Anna Lisa Sigurdsson 50% Arndis Bjornsdottir.“ Starfsmaðurinn sagði svo: „Getið þið vinsamlegast gert þetta og búið til samþykktir fyrir félagið og gefið út nýtt hluthafavottorð með dagsetningunni 13. janúar2014.“ Gögnin um yfirtöku þeirra Önnu Lísu og Arndísar voru því dagsett aftur í tímann. 

Í samtali við Fréttatímann neitar Arndís Björnsdóttir að ræða um málefni Robinson Associates Inc. og af hverju hún tók yfir félag á Tortólu. „Ég hef ekki áhuga á að tala við fréttamenn,“ segir Arndís. Félaginu var stjórnað af manni sem býr, eða bjó, í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Vincent De Canniere, og eru gögn um hann í Panamaskjölunum. Miðað við gögnin er hann ennþá stjórnarmaður félagsins. 

Vegna þess að Hreiðar Már var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun í Al Thani málinu lenti hann í því að starfsmenn Mossack Fonseca urðu tortryggnir vegna þess að hann hafði átt félagið. Í gögnunum koma fram áhyggjur þeirra af því að Hreiðar Már kunni að geyma illa fengið fé í félaginu vegna fortíðar sinnar á Íslandi. 

Starfsmenn svissneska eignastýringarfyrirtækisins lentu í orðaskaki við Mossack Fonseca vegna þessa og reyndu þeir að sannfæra starfsmenn panamaísku lögmannsstofunnar um að Hreiðar Már væri ekki lengur eigandi Robinson Associates heldur þær Anna Lísa og Arndís. Starfsmenn eignastýringarfyrirtækisins minntust hins vegar ekki einu orði á það að Anna Lísa væri eiginkona Hreiðars Más og Arndís eiginkona eins nánasta samstarfsmanns hans til margra ára. Starfsmaður eignastýringarfyrirtækisins, James Klein, sagðist meðal annars ekki skilja „áhyggjur“ Mossack Fonseca þar sem Hreiðar Már væri ekki formlega tengdur félaginu lengur. „Það er rétt að hr. Hreiðar Már Sigurðsson var hluthafi Robinson og að hann er sami einstaklingur og þú ræðir um. […] Hr. Sigurðsson færði hlutabréf sín til annarra og er í kjölfarið ekki meðlimur, stjórnandi eða stjórnarmaður í Robinson Associates.“

Mossack Fonseca lét sér þessar skýringar nægja og hætti að ganga á eftir svörum hjá svissneska fyrirtækinu um tengsl Hreiðars Más við fyrirtækið á Tortólu.