Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna ICIJ munu 9. maí næstkomandi opna aðgengi að gagnagrunni með upplýsingum um rúmlega 200 þúsund aflandsfélög sem koma fyrir í Panamagögnunum. Þetta mun líklega vera stærsti gagnagrunnar sinnar tegundar í heiminum.
Upplýsingarnar eru frá panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca sem talin er ein sú afkastamesta þegar kemur að stofnun aflandsfélaga og er með skrifstofur víða um heim; allt frá Hong Kong til Nevada.
Frá klukkan 18.00 þann 9. maí verður fólki kleift að leita í gagnagrunninum og gera sér betur grein fyrir umfangi þessa aflandsvefs og í einhverjum tilfellum fengið upplýsingar um raunverulega eigendur aflandsfélaganna. Til viðbótar verða birtar upplýsingar um 100 þúsund félög sem komu fyrir í öðru aflandsleka sem ICIJ rannsakaði árið 2013.
Þó að grunnurinn veiti innsýn inn í þennan heim verða ekki birtar hráar og óunnar upplýsingar. ICIJ mun almennt ekki birta bankareikninga, tölvupósta eða önnur persónuleg samskipti, afrit af vegabréfum eða símanúmer.
Mat er lagt á hvaða upplýsingar varði almannahagsmuni og gegnsæi.
ICIJ mun svo, ásamt samstarfsmiðlum sínum, þar á meðal Reykjavik Media, halda áfram rannsóknum sínum á innihaldi lekans og birta úr honum fréttir næstu vikur og mánuði.
Gagnagrunnurinn verður birtur á slóðinni https://offshoreleaks.icij.org 9. maí klukkan 18.00 að íslenskum tíma.