Eva Joly tekur þátt í ráðstefnu um aðgerðir gegn spillingu sem fer fram í London í dag. Þar mun Joly taka þátt í pallborðsumræðum með David Cameron forsætisráðherra Bretlands og Ashraf Ghani forseta Afganistan. Eva Joly segir í viðtal við Reykjavik Media að hún hafi í tuttugu ár unnið gegn skattaskjólum og að ráðstefnan í dag sé mikilvæg því þar geti hún komið þeim skilaboðum á framfæri hvað baráttan gegn skattaskjólum sé mikilvæg. 

Eva Joly segir mikilvægt að taka hart á rannsókn skattaskjóla og mikilvægt sé að horft sé til Íslands. „Mér finnst mikilvægt nú að íslenska fordæmið, Sérstakur saksónari, verði innleitt í öllum löndum. Við eigum að stofna sérstök, fjölmenn rannsóknarteymi til að rannsaka, ákæra og dæma viðkomandi… þá sem eiga skúffufélögin en líka þjónustuaðilana og bankana,“ segir Eva Joly í viðtali við Reykjavik Media, en hún var ráðgjafi íslenskra stjórnvalda þegar ákveðið var að stofna embætti Sérstaks saksóknara til að rannsaka Hrunmálin á Íslandi.

Ef þú ert með ábendingu um frétt sendu þá tölvupóst á adalsteinnk@rme.is eða johanneskr@rme.is. Þú getur einnig sent RME ábendingu í gegnum SecureDrop.