Júlíus Vífill Ingvarsson hefur sagt af sér sem borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. Það gerði hann í ljósi frétta Reykjavik Media um tengsl hans við Panamafélagið Silwood Foundation. Félagið lét hann setja upp fyrir sig árið 2014 í gegnum panamísku lögmannsstofuna Mossack Fonseca.
Þetta gerði hann við upphaf borgarstjórnarfundar hófst klukkan 14.00. Eins og greint var frá um helgina, bæði hér rme.is og í sérstökum Kastljósþætti, skráði Júlíus Vífill ekki aðkomu sína og eignarhald á Silwood í hagsmunaskráningu borgarstjórnar.
Júlíus Vífill, sem hefur setið í borgarstjórn í fjórtán ár, lét stofna félagið í Panama í ársbyrjun 2014 og greiddi fyrir það um 200 þúsund krónur. Mikil áhersla var lögð á það að nafn hans kæmi hvergi fram, né hver raunverulegur eigandi félagsins væri.
Hlutabréfin voru gefin út á handhafa. Svo mikil var leyndin yfir hinum raunverulega eiganda félagsins í allri skráningu og meðhöndlun þess að starfsmenn Julius Bär bankans sögðust ekki geta opnað bankareikning þar sem engin tengsl voru á milli Silwood foundation og Júlíusar Vífils.
Lestu umfjöllunina sem varð til þess að hann sagði af sér hér.