Áhrifamenn í Framsóknarflokknum tengdust nokkrum aflandsfélögum. Það gerðu tveir framkvæmdastjórar íslenskra lífeyrissjóða einnig og fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar.
Þetta kemur fram í gögnum frá panamaísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca sem lekið var til þýska dagblaðsins Süddeutsche Zeitung sem deilt var með Reykjavik Media í gegnumalþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna ICIJ og fjölmiðlum víða um heim. Greint var frá þessu í Kastljósi í kvöld.

Átti félagið í gegnum Lúxemborg
Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir og fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar, átti félag á Tortóla frá 2001 og fram að hruni. Félagið, sem hét M-Trade og var skráð á Tortóla, átti hann í gegnum félagið Meson Holding í Lúxemborg og er aðeins að finna nafn þess félags, ekki Vilhjálms sjálfs, í Panamagögnunum.
Vilhjálmur segir sjálfur að Kaupþing hafi stofnað félagið til að stunda afleiðuviðskipti. Lög í Lúxemborg hafi hamlað Meson að stunda slík viðskipti og því hafi verið farin þessi leið; að stofna aflandsfélag á Tortóla í eigu Lúxemborgarfélagsins.
Í frétt sem birtist á vef Kjarnans í kvöld hefur sagt sig úr stjórn Kjarnans vegna málsins.
Seðlabankamenn í Panama
Helgi S. Guðmundsson, þáverandi formaður bankaráðs Seðlabankans, og Finnur Ingólfsson, fyrrverandi Seðlabankastjóri, áttu saman félag á Panama árið 2007. Landsbankinn stofnaði félagið Adair S.A. að því er virðist í þeim tilgangi að lána þeim fyrir kaupum á bréfum í bankanum sjálfum.
Finnur segir að félagið hafi aldrei haft tekjur en að ef svo hefði verið hefðu verið greiddir skattar af því í Panama. Helgi, sem nú er látinn, var áhrifamaður í S-hópnum þegar hópurinn keypti Búnaðarbankann. Helgi sat á sama tíma í bankaráði Seðlabankans en bankinn hefur meðal annars það verkefni að hafa eftirlit með starfsemi banka og fjármálafyrirtækja á markaði.
Samkvæmt gögnum Mossack Fonseca voru bæði Helgi og Finnur með prókúru í félaginu. Auk Adair er Finnur skráður fyrir félaginu Lozanne Inc. á Panama. Sjálfur kannast hann ekki við félagið; segist aldrei hafa heyrt nafn þess áður.
Vildi leyna fjárfestingu í Danmörku
Framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, Hrólfur Ölvisson, er einnig nefndur í Panamagögnunum. Hann lét stofna aflandsfélagið Chamile Marketing í Tortóla árið 2003 í því skyni að fjárfesta í danska fyrirtækinu Scancore. Félagið fékk lánaðar 12 milljónir króna, vaxtalaust til fimm ára, frá íslenska félaginu Eldberg. Hrólfur var á þeim tíma einn þriggja eigenda félagsins í gegnum móðurfélagið Jarðefnaiðnaður ehf. Milljónirnar voru svo notaðar til að fjárefsta í Scancore.Samkvæmt lánasamningnum var tilgangurinn að leyna fjárfestingunni. „Tilgangurinn er að tryggja að nafn Eldbergs eða móðurfélags þess verði ekki skráð í tengslum við fjárfestingar Chamile Marketing,“ segir orðrétt í samningnum.
Milljónirnar virðast þó hafa tapað. Í gögnunum kemur fram að að félagið hafi átt árið 2008 útistandandi kröfur upp á rúmlega 6 milljónir danskra króna vegna yfirvofandi gjaldþrots Scancore. Fjármunirnir töpuðust svo við gjaldþrot Scancore.
Fékk tryggingaumboð sem endaði hjá VÍS
Hrólfur og Finnur eru svo tengdir einu aflandsfélaginu til viðbótar – Selco Finance í Panama. Fljótlega eftir að félagið var stofnað tryggði það sér umboð fyrir bandarískt tryggingafélag sem sérhæfði sig í að tryggja efnafólki bestu fáanlegu meðferð við alvarlegum veikindum.
Ári síðar tilkynnti svo VÍS, sem Finnur stjórnaði á þeim tíma, um samskonar samning og Selco Finance hafði tryggt sér. Hvergi kom þó fram í tilkynningu fyrirtækisins að samningnum hefði verið náð með kaupum á aflandsfélagi Hrólfs. Finnur og Benedikt Sigurðsson, fjármálastjóri VÍS, tóku við prókúru í félaginu af Hrólfi við kaupin.
Selco var slitið árið 2010.
Með tvö félög hjá Mossack Fonseca
Kristján Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sameinaða lífeyrissjóðsins, tengist tveimur aflandsfélögum. Hann tilkynnti ekki stjórn sjóðsins um félögin. Annað þeirra var stofnaði árið 2007 en hitt eftir hrun. Kristján Örn segir hvorugt félagið hafa verið notað.
Landsbankinn í Lúxemborg stofnaði félagið Mika Asset í Panama árið 2007. Gögn Mossack Fonseca gefa til kynna að félagið hafi verið flutt frá Landsbankanum til Nordea-bankans við hrun Landsbankans. Prókúra og stjórn Kristjáns Arnar á félaginu var gild til ársloka 2010 en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort hún var framlengd.Kristján Örn segir í samtali við Kastljós að félagið hafi verið stofnað að ráðgjöf Landsbankans. Það hafi ekki vakið fyrir honum að komast undan sköttum. Hann hafi heldur ekki notað félagið heldur varið sparifé sínu í að greiða inn á fasteignalán, enda hafi staðan verið orðin breytt eftir hrunið.
Félagið Fulcas Inc. var einnig stofnað fyrir Kristján árið 2009. Hann segir að Nordea bankinn hafi stofnað félagið vegna viðskipta sem þörfnuðust erlendrar fjármögnunar. Ekkert hafi hins vegar orðið af viðskiptunum.
Hætti vegna aflandstenginga
Kári Arnór Kárason, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðsins Stapa, tengist tveimur aflandsfélögum. Eldra félagið, Hola Holding, var stofnaði árið 1999 af Kaupþingi. Í samtali við Kastljós sagði Kári að bankinn hafi á þessum tíma verið að stofna vogunarsjóð í Lúxemborg og boðið honum að taka þátt með þessum hætti. Hann segist ekki hafa lagt fjármuni inn í félagið og að hann hafi talið að félagið hefði ekki haft neina starfsemi.
Félagið Utvortis Limited sem skráð var á Tortóla var svo stofnað fyrir milligöngu MP fjárfestingabanka árið 2004. Í samtali við Kastljós segir hann að félagið hafi verið stofnað til fjárvörslu sem þó hafi aldrei orðið að. Kári Arnór var með prókúru í félaginu en hlutabréf þess voru skráð á íslenska félagið Glímu ehf., félags í hans eigu.
Kári Arnór lét af störfum um helgina vegna umfjöllunarinnar en hann upplýsti ekki um félögin líkt og lög kveða á um.
Kastljósþáttinn má horfa á í heild sinni efst í þessari umfjöllun.