Fjölskylda Dorritar Moussaieff hefur tengsl við aflandsfélög sem finna má í Panamagögnunum. Foreldrar Dorritar, Schlomo og Alisa, voru eigendur félagsins Lasca Finance Ltd. sem var sett upp og skráð af Mossack Fonseca. Þetta kemur fram í rannsókn þýska blaðsins Süddeutsche Zeitung, ICIJ og Reykjavik Media á gögnum frá panamaísku lögmannsstofunni Mossack Fonseca.

Á föstudag fullyrti Ólafur Ragnar Grímsson forseti, sem nú hefur boðið sig fram í sjötta sinn, í samtali við CNN að hann og Dorrit hefðu ekki tengsl við aflandsfélög. „Nei, nei, nei, nei, það er ekki málið,“ sagði hann við CNN. Félagið sem kemur fram í Panamagögnunum var skráð á Bresku jómfrúareyjunum, rétt eins og félag Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, sem var tilefni fyrirspurnar CNN.

Ólafur Ragnar sagði þegar hann tilkynnti um framboð sitt á dögunum að uppljóstrun Reykjavik Media í samstarfi við áðurnefnda miðla og Kastljós, á aflandsfélögum íslenskra stjórnmálamanna, væri ein af ástæðum þess að hann endurskoðaði ákvörðun sína um framboð.

Reykjavik Media í samvinnu við Süddeutsche Zeitung og ICIJ mun fjalla um málið á næstunni.