Á lista yfir viðskiptavini Mossack Fonseca eru nöfn 11 fyrrverandi eða núverandi þjóðarleiðtoga, auk íslenska forsætisráðherrans. Þar má finna kunnuglegt ættarnafn úr uppgjöri eftirhrunsáranna; emírinn Sjeik Al Thani, og Hamad Al Thani, fyrrum forsætisráðherra Katars. Nágranni þeirra Prince Salman, konungur Sádi-Arabíu er þar líka sem og sjeik Kalífa bin Sajed, forseta Sameinuðu arabísku furstadæmanna. En einnig Ali Abu-Ragheb fyrrverandi forsætisráðherra Jórdaníu,  Ayad Allawi, fyrrverandi forsætisráðherra Íraks, Ahmad al-Nirghani fyrrverandi forseta Súdans og Mauricio Macri núverandi forseta Argentínu. 

Fjórir evrópskir þjóðarleiðtogar eru á listanum; þar af eru tveir starfandi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, sem talinn er einn ríkasti þjóðarleiðtogi Evrópu. Bidzina Ivanshili, fyrrverandi forsætisráðherra Georgíu og viðskiptajöfur, er einnig á listanum ásamt Pavlo Lazarenko, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu, sem hlotið hefur dóma fyrir peningaþvætti, spillingu og fjársvik, og afplánar nú níu ára fangelsisdóm í Bandaríkjunum.