Stofnað var sérstakt félag fyrir Ólöfu Nordal innanríkisráðherra og Tómas Sigurðsson eiginmann hennar á eyjunni Tortóla, sem eru hluti af Bresku jómfrúareyjunum, árið 2006. Ólöf og Tómas héldu ekki á hlutabréfum í félaginu sjálfu heldur fengu útgefna prókúru sem gaf þeim heimild til að koma fram og gera skuldbindandi samninga fyrir hönd félagsins líkt og þau væru eigendur og stjórnendur.

Þetta kemur fram í gögnum úr panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca sem þýska blaðið Süddeutsche Zeitung komst höndum yfir og deildi með alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, ICIJ, Reykjavík Media og 109 öðrum fjölmiðlum vísðvegar um heim. Í gögnunum eru nöfn þriggja ráðherra sem nú sitja í ríkisstjórn Íslands auk fyrrverandi ráðherra, annarra stjórnmálamanna og íslenskra viðskiptamanna.

Gátu hagað sér eins og eigendur

Sjálf hafnar Ólöf því í skriflegum svörum til samstarfsaðila Reykjavik Media að hafa átt aflandsfélög og bendir á að þó að hún hafi haft prókúru, eða power of attorney, hafi hún aldrei verið skráð fyrir hlutabréfum. Eiginmaður hennar, Tómas, gefur svipaðar skýringar en yfirlýsing frá honum barst eftir að skriflegar spurningar voru sendar á innanríkisráðherra.

Prókúrur aflandsfélaga á borð við þetta eru gjarnan gefnar út til raunverulegra eigenda aflandsfélaga á meðan hlutabréfin eru skráð í vörslu annarra eða sem handhafabréf. Samkvæmt yfirlýsingu Ólafar og skriflegum svörum hennar vegna þessarar fréttar ítrekar hún hins vegar að þau hjónin hafi aldrei verið eigendur félagsins. Landsbankinn í Lúxemborg hafði milligöngu um stofnun félagsins en það var Mossack Fonseca sem sá um skráningu þess og að skipa stjórn í félaginu.

„Síðari hluta ársins 2006 leitaði Tómas ráðgjafar hjá Landsbanka Íslands varðandi fjármál og kaupréttarsamninga sem voru hluti af starfskjörum hans . Markmiðið var að njóta leiðsagnar bankans varðandi hugsanlegar fjárfestingar í erlendum verðbréfum enda starfsvettvangur Tómasar alþjóðlegur,“ segir Ólöf í skriflegu svari sínu vegna málsins.

Hættu við eftir að hlutabréfin lækkuðu í verði

Samkvæmt þeim skýringum sem Ólöf og Tómas hafa gefið í skriflegum svörum sínum var ákveðið að hætta við að nýta kaupréttarsamninga eiginmanns hennar sem áttu að losna í janúar árið 2007. Í skýringu sem hún sendi þingmönnum Sjálfstæðisflokksins áður en hún greindi sjálf frá tilvist og tengingum sínum við Dooley Securities, segir hún að Tómas hafi metið það sem svo að ekki hafi verið fýsilegt að selja bréfin þar sem þau höfðu lækkað svo í verði. Það hafi verið ástæðan fyrir því að þau tóku aldrei við hlutabréfum í félaginu og ekkert hafi orðið að áformum þeirra um að færa fjármuni til Tortóla.

Þessar skýringar bera það með sér að það hafi verið ásetningur þeirra að færa fjármuni inn í aflandsfélagið sem staðsett var í svokölluðu skattaskjóli. Slík ráðstöfun hafði á þessum tíma tvennskonar kosti fyrir þá sem nýttu sér þessa leið; skattalegt hagræði annars vegar og leynd hins vegar.

Ólöf segir einnig að þessi gjörningur hafi átt sér stað áður en hún var kjörin á þing. Hún var fyrst kjörin á þing vorið 2007 eftir að hafa tekið þátt í prófkjöri flokksins í Norðausturkjördæmi þann 26. nóvember 2006. Tveimur dögum síðar voru Ólöf og Tómas Már Sigurðsson, eiginmaður hennar, skráð prókúruhafar félagsins Dooley Securities SA á Tortólu, samkvæt gögnum frá Mossack Fonseca, sem RME hefur undir höndum.

Allen, Alexander og Wong

Í gögnunum úr panamaísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca má sjá að lögrfræðistofan, sem sérhæfir sig í skráningu aflandsfélaga, beitir ýmsum aðferðum til að fela raunverulegt eignarhald þeirra. Ein þeirra aðferða sem notuð eru til að mynda leyndarhjúp um eignarhald félaga er að skipa einskonar skúffustjórnendur.

Stjórnarmenn í fyrirtækinu Dooley Securities S.A. voru þeir sömu og í Wintris Inc –  þau George Allen, Jaquelin Alexander og Carmen Wong. Þau sitja öll í stjórnum þúsunda aflandsfélaga og hafa þann eina tilgang að stimpla og skrifa undir hvaða skjöl sem þeim eru send. Allt er þetta gert til að mynda leyndarhjúp um raunverulega stjórnendur.

Í þessu samhengi má benda á að Bresku jómfrúareyjarnar hafa verið settar á sérstakan lista íslenskra stjórnvalda yfir lágskattasvæði ásamt 28 öðrum svæðum og löndum. Þar á meðal er einnig að finna Panama og Seychelle-eyjar, þar sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og flokksbróðir Ólafar, átti félag um nokkurra ára tímabil. Þessi svæði bera lága, og í sumum tilfellum enga fyrirtækjaskatta fyrir félög í eigu erlendra aðila.

Prókúran hafði engin takmörk

Prókúran sem Ólöf og Tómas fengu í tengslum við félagið var nær ótakmörkuð. Hún gilti frá 28. nóvember árið 2006 og var ótímabundin. Heimildin var til að stjórna fyrirtækinu, án takmarkana. Í umboðinu sem þau fengu voru tekin dæmi um heimildir sem þeim voru veittar en sérstaklega tekið fram að listinn væri ekki tæmandi.

Meðal þess sem þar kom fram var að Ólöf og Tómas hefðu leyfi til að fá lánaða eða lána peninga, með eða án trygginga, kaupa vörur, verðbréf, hlutabréf og fasteignir, fyrir reiðufé eða í reikning. Til að opna eða loka útibúum félagsins, til að binda, veðsetja, leigja, endurskrá, skipta, rukka fyrir og selja hvaða eignir félagsins sem er. Þá var einnig sérstaklega minnst á það í prókúrunni að þau hefðu rétt til að veita öðrum umboð til að höndla með eignir og fjármuni félagsins.

Fullyrðing Ólafar um að hún eða eiginmaður hennar hafi aldrei átt hlutabréf í aflandsfélagi eða félögum, er rétt en breytir ekki þeirri staðreynd að slíkt félag var sett á laggirnar fyrir þau, af Landsbankanum. Og þó bankinn hafi haldið á bréfum í félaginu voru heimildir þeirra til að nýta félagið eins og um eigendur þess væri að ræða. Hlutabréfin í Dooley voru einnig handveðsett milli Tómasar Más, Dooley og Landsbankans með samkomulag í ágúst 2007. Félagið var afskráð á Tortólu árið 2012 og ekki er að sjá í gögnum Mossack Fonseca að prókúra Ólafar eða Tómasar hafi verið afturkölluð fyrir þann tíma.