Fjölskyldan sem kennd er við útgerðina Sjólaskip í Hafnarfirði seldi útgerðarfyrirtækinu Samherja útgerð sína í Afríku fyrir tólf milljarða króna um vorið 2007 í gegnum eignarhaldsfélög í skattaskjólinu Tortólu. Tvö af systkinunum sem áttu útgerðina í Afríku, Berglind Jónsdóttir og Ragnheiður Jónsdóttir, notuðu eignarhaldsfélög á Tortólu til að halda utan um þrjú eignarhaldsfélög í Belís í Mið-Ameríku sem áttu þrjá verksmiðjutogara sem Samherji keypti af þeim í viðskiptunum. Sjólaskip var útgerðarfyrirtæki í Hafnarfirði sem Jón Guðmundsson stofnaði árið 1963. Árið 1997 hóf útgerðin veiðar úti fyrir strönd Afríku og unnu um þúsund manns hjá útgerðinni.

Aurora Continental Ltd.
Ragnheiður Jónsdóttir segist ekki vilja ræða málið í fjölmiðlum en eignarhaldsfélag hennar á Tortólu átti meðal annars togarann Heinaste í gegnum fyrirtæki í Mið-Ameríkuríkinu Belís. Skjalið frá Mossack Fonseca sýnir eignirnar sem seldar voru. Mynd: RME

Upplýsingar um aðkomu eignarhaldsfélaga Berglindar og Ragnheiðar að viðskiptunum með útgerðina Afríku er að finna í Panamaskjölunum en Fréttatíminn vinnur upp úr gögnunum í samstarfi við Reykjavík Media ehf. Panamaskjölin eru vinnugögn frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca og sýna viðskipti eignarhaldsfélaga í skattaskjólum.

Önnur af Sjólasystkinunum, Haraldur Jónsson og Guðmundur Jónsson, áttu félög á Tortólu en í gögnunum eru ekki sambærilegar upplýsingar og í tilfelli Berglindar og Ragnheiðar um að félög þeirra hafi selt hlutabréf í útgerðinni í Afríku. 

Útgerð Sjólafjölskyldunnar samanstóð af sex verksmiðjutogurunum, stórum skipum sem gátu verið á hafi úti í allt að tvö ár án þess að koma í land. Skipin veiddu fisk, aðallega hestamakríl, úti fyrir strönd Vestur-Afríku. Útgerðin gerði út frá á Kanaríeyjum.

Tvö af skjölunum sýna hvernig stjórnir Tortólafélaga Berglindar og Ragnheiðar kvaðu að selja hlutabréf sín í þremur fyrirtækjum í Belís sem áttu þrjá af verksmiðjutogurum Sjólaskipa. Systurnar fengu umboð frá Tortólafélögunum, Aurora Continental Limited og Stenton Consulting S.A., til að undirrita sölu á eignarhlutum þessara Tortólafélaga í Afríkuútgerðinni. 

Sjólasystkinin
Systkinin í Sjólaskipum vilja ekki veita upplýsingar um sölu Tortólafélaga í þeirra eigu á útgerð í Afríku til Samherja árið 2007.  Mynd: RME

Í tilfelli félags Ragnheiðar kemur fram að það hafi átt 22,5 prósent í þremur félögum, Fishing Company Beta Ltd., Kenora Shipping Company og Seadove Shipping Company Ltd. Þessi þrjú félög voru seld á 98 milljónir evra sem var rúmlega 2/3 af kaupverði Afríkuútgerðarinnar. Miðað við gögnin um félag Berglindar má ætla að hvert systkini hafi átt 22,5 prósent í félaginu eða samtals 90 prósent. Móðir þeirra, Marinella Haraldsdóttir, kann svo að hafa átt afganginn en hún er með prokúru yfir einu félagi samkvæmt skjölunum og greiddi eitt af Tortólafélögunum kredikortareikninga hennar samkvæmt Panamaskjölunum. Eitt félag var utan um hvert skip og var verksmiðjutogarinn Heinaste til dæmis skráður í eigu Kenora Shipping Company en bara verð þess félags nam 55 milljónum evra. Fékk Tortólufélag Ragnheiðar Jónu því 12,4 milljónir evra af  söluhagnaði Heinaste samkvæmt gögnunum. 

Sölusamningur Tortólafélags Ragnheiðar Jónu er frá 17. maí árið 2007. Einum degi síðar var sagt frá því í íslenskum fjölmiðlum að Samherji hefði keypt Afríkuútgerð Sjólaskipa. Í byrjun júní 2007 sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherji, að útgerðin hefði verið dýr. „Þetta eru miklar eignir sem við erum að kaupa, stór og mikil skip. Því er þetta stór dagur fyrir okkur. Kaupverðið er trúnaðarmál, en þetta er töluvert dýrt.“ DV sagði svo frá því síðar að verðið hefði verið um 140 milljónir evra, um tólf milljarðar króna á þeim tíma. Samherji seldi útgerðina svo til rússnesks útgerðarfélags árið 2013 en þá var hún búin að borga sig upp.

Eigendur Sjólaskipa, eða eignarhaldsfélög þeirra erlendis, fengu því mikla fjármuni frá Samherja. Ragnheiður Jónsdóttir neitar hins vegar að ræða við Fréttatímann um málið. „Ég hef ekkert við þig að tala.“ Þegar hún er spurð að því af hverju hún vilji ekki ræða um Tortólafélag sitt segir hún: „Ég hef ekkert við þig að tala í fjölmiðlum. Takk fyrir. Blessaður.“ Guðmundur Jónsson bróðir hennar vill heldur ekki ræða við Fréttatímann. Skattgreiðslur Tortólafélaganna af söluhagnaði Afríkuútgerðarinnar eru því ókunnar.