„Átt þú einhverjar aflandseignir?“ spurði Christiane Amanpour hjá CNN Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, í viðtali 22. apríl síðastliðinn. Tilefnið var óvænt ákvörðun hans að bjóða sig fram til forseta sjötta sinn. „Á eiginkona þín aflandsreikninga? Er eitthvað sem á eftir að uppgötvast um þig og þína fjölskyldu?“

„Nei, nei, nei, nei, nei,“ sagði Ólafur Ragnar. „Það mun ekki verða raunin.“

En raunin er þó aðeins flóknari en Ólafur Ragnar lýsti. Hann sjálfur virðist ekki eiga aflandsreikninga en fjölskylda eiginkonu hans, og hún sjálf, eru í gögnum um aflandsfélög og -reikninga í tveimur lekum sem ICIJ hefur rannsakað í tengslum við aflandsheiminn.

Tengist tveimur aflandsfélögum

Ólafur Ragnar í viðtali á CNN
Ólafur Ragnar í viðtali hjá CNN.

Forsetafrúin Dorrit Moussaieff hefur tengst minnst fimm bankareikningum í Sviss í gegnum fjölskyldu sína og að minnsta kosti tveimur aflandsfélögum, samkvæmt gögnum sem uppljóstrarar létu Le Monde, Süddeutshe Zeitung og ICIJ í té; lekar sem kallast Swiss Leaks og Panama Papers.

Fjölskylda hennar, þar á meðal systur hennar tvær, áttu reikninga með allt að 80 milljón dollara innistæðum í HSBC bankanum í Sviss árin 2006 og 2007. Dorrit virðist þó sjálf ekki hafa komið að flestum reikningunum.

Gögnin sýna engin lögbrot Dorritar og það er ekki ólöglegt að eiga aflandsfélög eða svissneska bankareikninga. Gögnin vekja engu að síður upp spurningar um hvort að forsetafrú Íslands hafi hagnast á aflandsviðskiptum foreldra hennar og hvort gerð hafi verið grein fyrir eignum hennar.

Átti hlut í aflandsfélögum

Upplýsingar frá HSBC sýna að Dorrit átti hlut á móti fjölskyldu sinni í félaginu Jaywick Properties Inc á Bresku jómfrúareyjunum. Hún var einnig skráð fyrir hlut í Moussaieff Sharon Trust, samkvæmt skránum. Til viðbótar benda gögnin til þess að hún hafi átt að erfa hluta aflandseigna foreldra sinna eftir að 86 ára móðir hennar Alisa félli frá.

Moussaieff-fjölskyldan auðgaðist að mestu í gegnum skartgripaverslun sína á New Bond Street í Lundúnum. Eftir að hafa byggt upp fyrirtækið í áratugi er fjölskyldan ein ríkasta skartgripafjölskylda heims; með auð metinn á 200 milljónir punda.

Upplýsingar um fjárhagsstöðu reikninga í HSBC bankanum eru frá árunum 2006 og 2007 og gætu því verið úreltar.

Segjast með aðskilinn fjárhag

Dorrit vildi ekki svara spurningum frá ICIJ um hvort hún tengdist þessum félögum í dag – Jaywick eða Moussaieff haro Trust eða nokkrum öðrum félögum fjölskyldunnar. Í yfirlýsingu sagði hún að viðskipti sín hefðu alltaf verið í samræmi við lög og að þau væru einkamál.

Í yfirlýsingu sagði hún að fjárhagur síns og Ólafs Ragnars væri og hefði alltaf verið aðskilinn. Örnólfur Thorsson forsetaritari sagði í skriflegu svari til Suddeutsche Zeitung  að forsetinn hefði enga vitneskju um félögin og að hann hefði aldrei heyrt um þau. Þá sagði Örnólfur að forsetinn hefði aldrei haft upplýsingar um aðra meðlimi Moussaieff fjölskyldunnar.

Forsetinn segir svo sjálfur í öðru skriflegu svari til ICIJ að Dorrit eigi engar eignir á Íslandi og að hún hafi aldrei veitt fjármagni í kosningabaráttu sínar, né annarra stjórnmálamanna eða flokka hér á landi. Hann leggur áherslu á að hafa ekki átt í viðskiptasambandi við Moussaieff-fjölskylduna.

Ólafur segist þá að ekki hafa fengið gjafir frá fjölskyldunni að undanskildum nokkrum bókum um sagnfræði sem hann fékk frá föður Dorritar fyrir um áratug.

Fréttin er unnin af Reykjavik Media í samstarfi við Guardian, Süddeutshe Zeitung og ICIJ. Höfundar: Ryan Chittum, Aðalsteinn Kjartansson, Barði Stefánsson, Jóhannes Kr. Kristjánsson.