Fiskveiðar íslenskra lífeyrissjóða í Afríku í gegnum tvö skattaskjól enduðu með því að hætta þurfti veiðunum og gefa Tortólafélagið, sem hélt utan um útgerðina, upp til gjaldþrotaskipta. Lífeyrissjóðirnir áttu togarann Blue Wave, ásamt öðrum íslenskum fjárfestum eins og Straumi og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, en árið 2014 var rekstrarfélagi togarans á Tortólu, Wave Operation Ltd., slitið. Þetta kemur fram í Panamaskjölunum, gagnaleka frá panamaísku lögmannsstofunni Mossack Fonseca. Fréttin er unnin í samstarfi við Reykjavík Media.

Meðal eigenda Blue Wave voru Gildi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Stapi, Stafir og Sameinaði lífeyrissjóðurinn.

Í Panamaskjölunum er að finna gögn um gjaldþrot Wave Operation Ltd. þar sem meðal annars kemur fram að togari lífeyrissjóðanna fékk ekki leyfi frá yfirvöldum í Máritaníu til að stunda veiðar í fiskveiðilögsögu þess lands árið 2012. Á því ári gerði Máritanía samning við Evrópusambandið um fiskveiðar í landinu og gat Blue Wave í kjölfarið ekki veitt í landinu þar sem togarinn var ekki í eigu aðila sem tilheyrðu Evrópusambandinu. Skiptastjóri félagsins, Matthew Richardsson, segir að þess vegna hafi verið ákveðið að reyna að veiða utan fiskveiðilögsögu einstakra ríkja í Afríku, úti á opnu hafi eins og það er orðað, en að það hafi ekki gengið sem skyldi.

Í kjölfarið seldi móðurfélag Tortólafélagsins, Blue Wave Ltd. í skattaskjólinu Jersey á Ermarsundi, Blue Wave til félags í eigu Samherja sem heitir Saga. Svo var ákveðið að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta.

Í gögnunum kemur fram að samþykktar kröfur í bú Wave Operation hafi numið rúmum tveimur milljónum dollara. Félagið átti hins vegar bara eignir upp á tæplega 200 þúsund dollara. Tap kröfuhafa Tortólafélagsins nam því um 1800 þúsund dollurum. Í gögnum slitastjórans kemur fram að birgjar og þjónustuaðilar, sem Wave Operation skuldaði peninga, hafi ekki fengið þá til baka. Stærstur hluti krafna á hendur Wave Operation voru hins vegar frá móðurfélagi þess á Jersey, 11 milljónir dollara.

Fjárfestingunni var stýrt af félaginu Thule Investments og voru tveir af stjórnendum Tortólafélagsins starfsmenn þess, þau Gísli Hjálmtýsson og Herdís Dröfn Fjeldsted, sem í dag er framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands en hann er í eigu lífeyrissjóða. Herdís var stjórnarformaður bæði félagsins á Jersey og einnig á Tortólu.

Herdís Fjeldsted segir að aldrei hafi verið tekinn arður út úr fyrirtækinu áður en það varð gjaldþrota og að starfsemin hafi aldrei staðið undir væntingum. „Þetta fór náttúrulega ekki eins og ég vildi. Auðvitað vildi enginn að hlutaðeigandi töpuðu sínum fjármunum. En þetta fór sem fór. Þetta voru utanaðkomandi aðstæður sem enginn réði við.“