Uppljóstrarinn sem kom Panamagögnunum til þýska blaðsins Süddeutsche Zeitung og alþjóðasamtaka rannsóknarblaðamanna ICIJ er tilbúinn til að aðstoða stjórnvöld í heiminum við skattrannsóknir. Fyrst, vill hann að ríkisstjórnir heimsins lögfesti vernd uppljóstrara. Þetta kemur fram í aðsendri grein uppljóstrarans í Süddeutshe Zeitung og ICIJ sem birtist samtímis í fjölmiðlum sem koma að Panamagögnunum og birtist fyrst klukkan 15 og er hér að neðan.

Byltingin verður stafræn

eftir John Doe

Tekjuójöfnuður er eitt af stærstu málum okkar tíma. Hann hefur áhrif á okkur öll, alls staðar í heiminum. Umræðan um öran vöxt tekjuójöfnuðar hefur staðið um árabil, þar sem stjórnmálamenn, fræðimenn og aktivistar hafa ekki getað stöðvað hann þrátt fyrir óteljandi ræður, tölfræðigreiningar, nokkur mótmæli og stöku heimildarmyndir. Enn stendur spurningin eftir: af hverju? Og Af hverju núna?

Svarið við þessum spurningum er skýrt í Panamagögnunum; gríðarleg, gegnsýrð spilling. Og það er ekki tilviljun að svörin skuli koma frá lögmannsstofu – sem er ekki bara tannhjól í maskínu „auðstjórnunar“ því Mossack Fonseca notaði áhrif sín til að skrifa og beygja lög um allan heim til að þjóna hagsmunum glæpamanna um áratugaskeið. Í tilviki eyjunnar Nieu rak lögmannsstofan í raun skattaskjól frá upphafi til enda. Ramón Fonseca og Jürgen Mossack vilja að við trúum því að skúffufélög stofunnar, sem stundum eru kölluð „farartæki með sérstakan tilgang“ séu eins og bílar. En sölumenn notaðra bíla skrifa ekki lög. Og eini „sérstaki tilgangur“ þessara farartækja sem þeir bjuggu til var of oft svik, af gríðarstórum skala.

Skúffufélög eru oft tengd glæpum og skattaundanskotum en Panamagögnin sýna án alls vafa að þó að skúffufélög séu ekki ólögleg samkvæmt skilgreiningu, eru þau notuð til að fremja ýmiskonar alvarlega glæpi sem ganga lengra en skattaundanskot. Ég ákvað að afhjúpa Mossack Fonseca af því að mér fannst að stofnendur, starfsmenn og viðskiptavinir þess ættu að þurfa að svara fyrir hlutverk þeirra í þessum glæpum, sem aðeins hefur verið fjallað um að hluta enn sem komið er. Það mun taka ár, jafnvel áratugi, að allar ömurlegar aðgerðir stofunnar að koma í ljós.

Á meðan hefur hafist ný umræða í heiminum, sem er hvetjandi. Ólíkt pólitísku orðagjálfri síðari ára, þar sem vandlega var skautað fram hjá hugmyndum um misgjörðir elítunnar, beinist þessi umræða að því sem skiptir máli.

Í því samhengi hef ég nokkrar hugleiðingar.

Svo það sé sagt, þá vinn ég ekki fyrir neinar ríkisstjórnir eða leyniþjónustur, beint eða sem verktaki, og hef aldrei gert. Mitt sjónarhorn er algjörlega mitt eigið, eins og sú ákvörðun mín að deila gögnunum með Süddeutsche Zeitung og alþjóðasamtökum rannsóknarblaðamanna ICIJ, ekki í neinum ákveðnum pólitískum tilgangi, heldur einfaldlega af því að ég skildi nóg um efni þeirra til að átta mig á óréttlætinu sem gögnin sýna.

Ráðandi stef í fjölmiðlaumfjöllun hefur hingað til verið skandalinn um hvað er löglegt og leyfilegt í þessu kerfi. Það sem er leyfilegt er skandall og verður að breyta. En við megum ekki tapa sjónum af öðrum mikilvægum þætti: lögmannsstofan, stofnendur hennar og starfsmenn brutu vísvitandi ógrynni laga um allan heim, ítrekað. Opinberlega bera þau við þekkingarleysi en gögnin sýna nákvæma vitneskju og vísvitandi misgjörðir. Að minnsta kosti vitum við að Mossack framdi persónulega meinsæri fyrir alríkisdómstól í Nevada og við vitum líka að almannatenglar hans reyndu að fela undirliggjandi lygar. Þau eiga öll að sæta ákæru vegna þessa og ekki njóta sérstakrar meðferðar.

Þegar upp er staðið gætu þúsundir málsókna komið í kjölfar Panamagagnanna, ef yfirvöld gætu fengið aðgengi að þeim og metið gögnin sjálf. ICIJ og samstarfsaðilar hafa réttilega staðhæft að þau munu ekki afhenda yfirvöldum gögnin. Ég, hins vegar, væri tilbúinn til samstarfs við lögregluyfirvöld eftir því sem ég get.

Að því sögðu hef ég horft á líf hvers uppljóstrarans og aktívistans á fætur öðrum vera lagt í rúst í Bandaríkjunum og Evrópu vegna aðstæðnanna sem þeir lenda í eftir að hafa varpað ljósi á augljósar misgjörðir. Edward Snowden er fastur í Moskvu, í útlegð vegna ákvörðunar ríkisstjórnar Obama um að sækja hann til saka. Það ætti að taka á móti honum sem hetju og veita honum veglega viðurkenningu, en ekki bannfæra hann vegna uppljóstrananna. Bradley Birkenfeld voru veittar milljónir fyrir upplýsingarnar sem hann veitti um svissneska bankann UBS ­– en hann var samt dæmdur til fangelsisvistar. Antoine Deltour er nú fyrir dómstólum fyrir að veita blaðamönnum upplýsingar um hvernig Lúxemborg gerði leynilega skattasamninga við alþjóðleg fyrirtæki, sem í raun rændi milljarða skatttekjum af nágrannaríkjunum. Og það eru mörg fleiri dæmi.

Uppljóstrarar sem fletta ofan af óumdeilanlegum misgjörðum, hvort sem þeir koma innan frá eða utan, eiga skilið að fá friðhelgi frá refsingum ríkisstjórna. Punktur. Þangað til ríkisstjórnir festa varnir fyrir uppljóstrara í lög, verða yfirvöld einfaldlega að treysta á þeirra eigin úrræði eða áframhaldandi fjölmiðlaumfjöllun til að sjá gögnin.

Í millitíðinni kalla ég eftir að Evrópuráðið, breska þingið og bandaríska þingið, og allar þjóðir grípi til aðgerða strax, ekki bara til að vernda uppljóstrara, heldur líka til að binda endi á hnattræna misnotkun á fyrirtækjaskráningum. Í Evrópusambandinu ætti að vera frítt aðgengi að fyrirtækjaskrám allra aðildarríkja, með nákvæmum upplýsingum um raunverulega eigendur félaga. Bretland getur verið stolt af sínum aðgerðum innanlands hingað til en hefur enn mikilvægu hlutverki að gegna til að binda endi á fjármálaleynd á hinum ýmsu eyjum sínum, sem eru óumdeilanlega hornsteinn stofnanaspillingar um allan heim. Og Bandaríkin geta ekki lengur treyst fimmtíu ríkjum sínum til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um fyrirtækjaskráningar. Það er löngu tímabært fyrir þingið að stíga inn í og þvinga fram gagnsæi með því að setja viðmið um upplýsingagjöf og aðgengi almennings.

Og það er eitt að lofsama dyggðir um gagnsæi stjórnvalda á ráðstefnum og í orðum – það er allt annað að koma því í verk. Það er þekkt leyndarmál að í Bandaríkjunum verja kjörnir fulltrúar meirihluta vinnutíma síns til fjáröflunar. Það verður ekki hægt að koma upp um skattaundanskot á meðan kjörnir fulltrúar eru að biðja um peninga frá elítunni sem hefur sterkustu hvatana til að koma sér undan skattgreiðslum. Þessi sóðalega pólitík er komin allan hringinn og er óásættanleg. Úrbætur á ónýtu kerfi fjármögnunar í heimi stjórnmála í Bandaríkjunum geta ekki beðið.

Að sjálfsögðu er þetta ekki einu málið sem þarf að laga. Forsætisráðherra Nýja Sjálands, John Key, hefur verið forvitnilega þögull um þátt landsins í að styðja við Mekka fjármálasvika, sem eru Cook-eyjar. Í Bretlandi hafa íhaldsmenn blygðunarlaust dulið eigin venjur tengdar aflandsfélögum, á meðan Jennifer Shasky Calvery, yfirmaður Financial Crimes Enforcement Network í bandaríska fjármálaráðuneytinu, tilkynnir uppsögn sína til þess að fara að vinna fyrir HSBC, eins alræmdasta banka á plánetunni (það er engin tilviljun að höfuðstöðvarnar séu í London). Og þannig heyrist kunnuglegt hvín í hringhurð Bandaríkjanna í miðri æpandi þögn þúsunda, enn sem komið er, óþekktra raunverulegra eigenda aflandsfélaga sem biðja þess væntanlega að sá sem taki við af henni verði jafn kjarklaus. Í ljósi pólitísks kjarkleysis, er freistandi að gefast upp, að færa rök fyrir því að staðan muni haldast óbreytt í grundvallaratriðum, á meðan Panamagögnin eru, ef ekki annað, áberandi einkenni sjúkrar og fúinnar siðferðisvitundar samfélagsins.

En vandamálið er loksins uppi á borðinu og að breytingar taki tíma kemur ekki á óvart. Í fimmtíu ár hefur framkvæmdavaldi, löggjafarvaldi og dómsvaldi um allan heim algjörlega mistekist að taka á skattaskjólum sem hafa dreift sér um yfirborð jarðarinnar. Jafnvel í dag segist Panama vilja vera þekkt fyrir annað en pappíra, en ríkisstjórnin hefur aðeins rannsakað einn vagninn í aflandshringekjunni sinni.

Bankar, fjármálaeftirlit og skattyfirvöld hafa brugðist. Ákvarðanir hafa verið teknar sem þyrma hinum ríku og fókusa í staðin á milli- og lágtekjufólk.

Öfugsnúnir og óskilvirkir dómstólar hafa brugðist. Dómarar hafa of oft samþykkt röksemdir ríkra, sem eru með lögmenn – ekki bara Mossack Fonseca – sem eru vell þjálfaðir í að virða lagabókstafinn á sama tíma og þeir gera allt í sínu valdi til að fara á svig við anda þeirra.

Fjölmiðlar hafa brugðist. Margar fréttastofur eru skopstæling á því sem þær áður voru, einstaka milljarðamæringar virðast hafa tekið upp dagblaðaeign sem sérstakt áhugamál, takmarkað umfjöllun um alvarleg mál varðandi hina ríku og alvöru rannsóknarblaðamennsku skortir fjármögnun. Afleiðingarnar eru raunverulegar: til viðbótar við Süddeutsceh Zeitung og ICIJ, og þrátt fyrir afdráttarlausar yfirlýsingar um annað, létu margar stórar fréttastofur ritstjóra sína fara yfir skjöl úr Panamagögnunum. Þeir völdu að fjalla ekki um þau. Sorglegi sannleikurinn er sá að meðal stærstu og öflugustu fjölmiðla heims var ekki einn sem hafði áhuga á efninu. Jafnvel Wikileaks svaraði ekki ítrekuðum ábendingum.

En mest af öllu hefur lögfræðin brugðist. Lýðræðisleg stjórnvöld treysta á að ábyrgir einstaklingar séu alls staðar í kerfinu sem skilji og verji lögin, ekki skilji þau og misnoti. Að jafnaði hafa lögmenn orðið svo spilltir að áríðandi er að miklar breytingar verði gerðar á greininni, mun meiri en nú þegar hafa verið lagðar til. Til að byrja með þá hafa siðferðileg gildi innan lögfræðinnar sem siðareglur lögmanna og starfsleyfi þeirra byggja á, orðið refhvörfum að bráð.

Mossack Fonseca vann ekki í tómarúmi – þrátt fyrir ítrekaðar sektir og skjalfest brot á reglum, fann stofan sér samherja og viðskiptavini á stórum lögmannsstofum í svo gott sem öllum löndum. Ef hin mölbrotna hagfræði greinarinnar eru ekki næg sönnunargögn, er ekki hægt að neita því núna að lögmenn geta ekki lengur fengið að hafa eftirlit hvor með öðrum. Það gengur einfaldlega ekki upp. Þeir sem hafa efni á að borga mest geta alltaf fundið sér lögmann sem þjónar þörfum þeirra, sama hvort sá lögmaður starfi hjá Mossack Fonseca eða annarri lögmannsstofu sem við þekkjum ekki. Hvað með restina af samfélaginu?

Samanlögð áhrif þessara þátta hafa orðið til algjörs rofs á siðferðilegum viðmiðum, sem hefur á endanum leitt okkur að nýju kerfi sem við köllum ennþá kapítalisma, en er líkari efnahagslegum þrældómi. Í þessu kerfi – okkar kerfi – eru þrælarnir ómeðvitaðir um bæði stöðu sína og húsbændur sína, sem eiga heima í öðrum heimi þar sem óefnislegir fjötrar eru vandlega faldir í feiknalegum og óaðgengilegum lagatexta. Hræðilegt umfang skaðans fyrir heiminn ætti að stuða og vekja okkur. En þegar það þarf uppljóstrara til að hringja viðvörunarbjöllunum, er ástæða til að hafa enn þyngri áhyggjur. Það gefur til kynna að lýðræðislegt eftirlitskerfi hefur brugðist, að niðurbrotið sé kerfislægt, og að verulegt ójafnvægi sé handan við hornið. Svo núna er tími fyrir raunverulegar aðgerðir og þær hefjast á að við spyrjum spurninga.

Sagnfræðingar geta auðveldlega farið yfir hvernig mál sem varða skatta og valdaójafnvægi hefur leitt til byltinga á fyrri tímum. Þá var hernaðarlegur máttur nauðsynlegur til að berja niður fólk, en núna er það að stjórna aðgengi að upplýsingum jafn áhrifaríkt, ef ekki enn áhrifaríkara, þar sem verknaðurinn er ósýnilegur. Samt lifum við á tímum ódýrrar og takmarkalausrar stafrænnar geymslu og hraðra nettenginga sem tengjast þvert á landamæri. Það þarf ekki svo mikið til að tengja punktana: frá upphafi til enda, með upphafi hnattrænna fjölmiðla, verður næsta bylting stafræn.

Eða kannski er hún þegar hafin.