
Einn frambjóðandi auk þeirra þriggja þingmanna sem áður hafa verið tengdir við aflandsfélög er að finna í Panamagögnunum. Það er Jósef Guðbjartsson, frambjóðandi í 24. sæti á lista Flokks fólksins í Suðurvesturkjördæmi.
Jósef sagði í samtali við Morgunútvarpið að það hafi verið Landsbankinn í Lúxemborg, þar sem hann var í bankaviðskiptum, hafi látið stofna félagið á Tortóla. Hann sagði að ekkert skattalegt hagræði hafa verið af félagi enda hafi það ekki verið notað. Reikningur hafi verið stofnaður fyrir félagið í Lúxemborg en engir fjármunir hafi farið inn á þann reikning. Jósef sagðist ekki hafa gert félögum sínum í Flokki fólksins grein fyrir félaginu; engin ástæða hafi verið til þess.
Morgunútvarpið vinnur úr Panamagögnunum ásamt Reykjavik Media en gögnin eiga uppruna í panamaísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca. Gögnunum var lekið til þýska blaðsins Süddeutsche Zeitung sem deildi þeim með alþjóðasamtökum rannsóknarblaðamanna sem aftur deildi þeim með yfir hundrað fjölmiðlum um allan heim.
Þegar að framboðsfrestur var liðinn og landskjörstjórn búin að staðfesta alla framboðslista var nöfnum allra 1.302 frambjóðenda flett upp í gögnunum. Gögnin voru svo yfirfarin og haft var samband við þá einstaklinga sem ekki hafa áður verið til umfjöllunar vegna aflandsfélaganna sem gögnin sýndu að þeir tengdust.
Áður hefur verið fjallað um að ráðherrarnir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, og Ólöf Nordal, varaformaður flokksins, og fyrrverandi forsætisráðherrann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi tengsl við aflandsfélög.
Greint var frá nöfnum þeirra í umfjöllun Reykjavik Media og Kastljóss í apríl síðastliðnum.